Gunnar Magnússon þjálfari Hauka og aðstoðarþjálfari íslenska handknattleikslandsliðsins mun taka við þjálfun meistaraflokks Aftureldingar sumarið 2020.
Einar Andri Einarsson hættir eftir yfirstandandi keppnistímabil, þegar samningur hans rennur út, eftir sex ár í Mosfellsbænum. Lið Aftureldingar hefur spilað mjög vel á tímabilinu og er í 2. sæti Olís-deildarinnar nú þegar jólafríið er hafið.
Gunnar er mjög reyndur og sigursæll þjálfari og hefur þjálfað Hauka frá árinu 2015. Hann varð Íslandsmeistari með Haukum árið 2016 eftir úrslitarimmu við Aftureldingu auk þess að verða deildarmeistari 2016 og 2019. Þar áður þjálfaði Gunnar ÍBV sem hann gerði að Íslands- og bikarmeisturum. Hann hefur einnig þjálfað Víking, HK og í Noregi.
Gunnar mun taka við mjög góðu búi frá Einari Andra sem hefur unnið frábært starf fyrir félagið undanfarin ár. Einar Andri hefur á tíma sínum hjá Aftureldingu tvívegis farið í úrslitaeinvígi um Íslandsmeistaratitilinn og í bikarúrslit 2017.