Ísak Atli gengur til liðs við Aftureldingu

Ungmennafélagið Afturelding Knattspyrna

Afturelding hefur samið við varnarmanninn Ísak Atla Kristjánsson sem gengur til liðs við Aftureldingu úr uppeldisfélagi sínu Fjölni. Ísak er tvítugur að aldri og getur bæði leyst stöðu miðvarðar og bakvarðar.

Ísak hefur þrátt fyrir ungan aldur góða reynslu úr Inkasso-deildinni og á að baki 33 leiki í deild og bikar. Hann var á láni hjá Leikni R. tímabilið 2017 og sömuleiðis hjá Haukum tímabilið 2018.

Ísak á að baki 22 leiki með yngri landsliðum Íslands og hefur hann skorað í þeim tvö mörk. Hann var hluti af sterku liði Íslands sem náði góðum árangri á Ólympíuleikum æskunnar árið 2015.

Afturelding gerir tveggja ára samning við Ísak Atla sem mun leika með félaginu í Fótbolta.net mótinu á næstu viku. Að því loknu heldur Ísak aftur til Bandaríkjanna þar sem hann er í háskólanámi. Ísak kemur aftur til liðs við Aftureldingu í lok maí og leikur með liðinu fram í miðjan ágúst þegar hann heldur aftur til Bandaríkjanna.

„Ísak er öflugur varnarmaður sem hefur þrátt fyrir ungan aldur talsverða reynslu í meistaraflokki.  Hann styrkir liðið okkar vel og smellpassar inn í leikmannahópinn,“ segir Magnús Már Einarsson, þjálfari Aftureldingar.

Afturelding býður Ísak Atla velkominn í félagið og bindur miklar vonir við komu hans til félagsins.