N1 deild karla Sigur á Íslandsmeisturunum

Handknattleiksdeild AftureldingarHandbolti

Eftir lélegan leik á móti Fram í síðustu umferð mættu okkar menn staðráðnir í að sýna sitt rétta andlit og ná í tvö gríðarlega mikilvæg stig.
Liðið fékk réttláta gagnrýni eftir síðasta leik. Þar var eins og menn væru búnir að gefast upp og út á við leit út eins og menn væru þarna bara skyldunnar vegna.
Leikurinn í gær byrjaði ekki sérlega vel, þó var strax ljóst að menn voru tilbúnir að leggja sig fram og greinilega búnir að gera sér grein fyrir að hver leikur er nánast úrslitaleikur. Leikurinn var jafn framan af og bæði lið gerðu mikið af klaufa mistökum. Frábær kafli hjá heimamönnum skilaði 5 marka forystu þegar lítið lifði fyrri hálfleiks. En HK átti 3 síðustu mörk hálfleiksins og forystan komin niður í 2 mörk.
Seinni hálfleikur byrjaði illa og HK virtist ætla að ganga frá heimamönnum. En enginn var tilbúinn að gefast upp. Jóhann var frábær og raðaði inn mörkum. Sverrir átti nokkur góð mörk og sýndi að hann er góð skytta þegar hann gerir hlutina á fullum krafti. Vörnin small aftur og Afturelding jafnaði leikinn og gott betur en það, komust tveimur mörkum yfir. Lokamínúturnar voru spennandi og HK náði að jafna leikinn. Jóhann hélt uppteknum hætti og skoraði tvö síðustu mörk leiksins.
Niðurstaðan var tveggja marka sigur í góðum en kaflaskiptum leik. Tvö gríðarlega mikilvæg stig og það er á hreinu að hver leikur er úrslitaleikur.
Frábært að sjá hvernig liðið brást við gagnrýni frá síðasta leik. Mikið um meiðsli hjá liðinu og gaman að sjá unga leikmenn fá tækifæri . Í gær steig Birkir Benediktsson 16 ára, sín fyrstu skref með meistaraflokki. Hann er á yngra ári í 3. flokki og kom inná í gær og gerði eitt virkilega gott mark. Verður gaman að fylgjast með honum í framtíðinni.  Í gær vantaði Örn Inga, Pétur, Einar, Böðvar og  Kristinn Hrannar. Helgi Héðins var tæpur fyrir leikinn en gaf allt sitt og skilaði sínu. Enn bættist á listann og Sverrir þurfti að yfirgefa völlinn fjórum mínútum fyrir leikslok.
Mikilvæg tvö stig og það sem er enn mikilvægara var hvernig menn mættu til leiks. Áhorfendur upplifðu það að leikmenn voru tilbúnir að gefa allt sitt í leikinn.
Baráttan heldur áfram og nú fá leikmenn Aftureldingar tækifæri til að kvitta fyrir arfaslakan leik á móti Fram næsta fimmtudag í Safamýrinni.
Ég mun mæta í Safamýrina og vona að sem flestir geri slíkt hið saman.

Áfram afturelding.
Handboltaáhugamaður

Mörk Aftureldingar: Jóhann Jóhannsson 12, Þrándur Gíslason 5, Sverrir Hermannsson 4, Benedikt Reynir Kristinsson 4, Hilmar Stefánsson 2, Birkir Benediktsson 1, Hrafn Ingvarsson 1, Helgi Héðinsson 1.