Það voru afbragðsaðstæður til knattspyrnuiðkunar í Kaplakrika þegar Afturelding heimsótti FH í Pepsideildinni á miðvikudagskvöld. Sól og blíða en nokkuð kalt. Bæði lið leituðu fyrir sér fyrstu mínúturnar og áttu Aldís og Telma ágætis tilraunir og m.a. átti Telma skot í þverslá. Smám saman náði FH yfirhöndinni og uppúr miðjum fyrri hálfleik kom afar dapur kafli hjá okkur og FH gerði þrjú mörk á tíu mínútum og var aðdragandi þeirra allra af ódýrari gerðinni. John stokkaði þá upp skipulag liðsins og stelpurnar náðu sér aðeins á strik á ný.
Síðari hálfleikurinn var mun betri af okkar hálfu og jafnræði komst á að nýju. Mun betri barátta var í liðinu og Sigríður Þóra Birgisdóttir náði að skora mark eftir markmannsmistök en góður framherji er oft á réttum stað á réttum tíma og það var Sigga svo sannarlega þar. Afturelding fékk nokkur ágæt tækifæri í síðari hálfleik til að hleypa meiri spennu í leikinn en það vantaði oft örlítið uppá úrslitasendinguna og því urðu mörkin ekki fleiri.
Fyrri hálfleikur var slakur af okkar hálfu og FH-ingar fengu alltof auðveldlega að spila sig í færi. Öll mörkin komu eftir óþarfa klaufaskap og FH virtist ekki þurfa að hafa mikið hlutunum. Í síðari hálfleik kom nánast annað lið til leiks og gamla góða baráttan kom aftur í ljós. Það vantaði þó aðeins uppá nákvæmni í sendingum en með smávegis heppni hefði staðan getað verið aðeins önnur í lok leiksins. Síðari hálfleikur fór 1-1 sem lýsir honum líklega ágætlega en því miður var erfitt að koma til baka eftir að vera 3-0 undir í hálfleik og lokatölur því 4-1 fyrir FH.
Það er erfitt að útnefna einhvern sérstakan leikmann að þessu sinni. Jenna vann sig vel inn í leikinn eftir því sem á leið en hún byrjaði á miðjunni en var færð aftur í vörnina undir lok fyrri hálfleiks. Halla Margrét var mikið í boltanum og greip nokkrum sinnum afbragðsvel inní og varði vel og Telma kom sér í þónokkur færi en vantaði herslumuninn til að ná að skora. Maður leiksins er hinsvegar valin Sigríður Þóra Birgisdóttir en mark hennar var ljósasti punktur kvöldsins. Sigga vann vel allan leikinn og kom gjarnan langt aftur til að aðstoða í varnarleiknum og sýndi sitt kunna markanef þegar hún nýtti sér mistök markmanns FH til að skora mark Aftureldingar.
Næst mæta stelpurnar Breiðablik á Varmárvelli á þriðjudaginn kemur.