Karate

Karate Open Lissabon og heimsbikarmót í Salzburg

Karatedeild AftureldingarKarate

Karate Open Lissabon

Helgina 20-22. september fór fram opna bikarmótið Lissabon Open. Alls voru 665 keppendur frá 18 þjóðum skráðir til leiks. Landslið Íslands í kata tók þátt sem liður í undirbúningi fyrir Evrópumót Smáþjóða sem fer fram í lok október. Þórður keppti í sterkum flokki senior kata male, en þar voru 30 keppendur frá 7 þjóðum.

  • Í fyrstu umferð lenti Þórður á móti danska landsliðsmanninum David Veistrup. Þórður vann viðureignina með Anan á móti Gojushiho Dai hjá Veistrup.
  • Í annari umferð lenti Þórður á móti portúgalska landsliðsmanninum Martim Oliveira. Þórður gerði Ohan Dai á móti Anan Dai og tapaði Þórður óvænt viðureigninni með minnsta mögulega mun eða 0,1 stig.  Þar sem Oliveira fór alla leið í úrslit þá fékk Þórður uppreisnarbardaga með möguleika á að keppa um brons.
  • Í fyrstu uppreisn keppti Þórður á móti lúxembúrgíska landsliðsmanninum Samuele Bruscella sem gerði Anan á móti Ohan hjá Þórði. Þórður vann viðureignina örugglega.
  • Í annarri uppreisn keppti Þórður á móti portúgalska landsliðsmanninum Guilherme Gonçalves. Þórður gerði Anan Dai á móti Seipai og vann Þórður viðureignina örugglega.
  • Í þriðju uppreisn og í bardaganum um bronsið lenti Þórður á móti reynda og sigursæla landsliðsmanninum Artur Neto frá Portúgal. Fór svo að Þórður tapaði með bardaganum Suparinpei á móti Ohan Dai hjá Neto og því lenti Þórður í 5. sæti á mótinu.

Una Garðarsdóttir náði bronsi í junior flokki og Eydís Magnea náði einnig bronsi í kumite female senior +61 kg

Heildar úrslit mótsins má finna hér.

Heimsbikarmót í Salzburg

Helgina 13.-15. september tók Þórður þátt í heimsbikarmótaröðinni sem var að þessu sinni haldin í Salzburg. Að vanda var mótið gríðarlega fjölmennt og tóku margir fremstu keppendur í karate þátt í þessu lokamóti ársins. Þórður keppti í sérlega sterkum flokki í senior kata male, en þar voru 128 keppendur skráðir til leiks frá 35 löndum. Í fyrstu umferð lenti Þórður á móti Slóvakanum Adam Stelch og tapaði Þórður bardaganum og fékk því ekki að keppa meira.

Karate