Glæsilegur sigur hjá stelpunum – lögðu HK/Víking

KnattspyrnudeildKnattspyrna

Afturelding var betri aðilinn allan leikinn og það var ljóst frá upphafi að ekkert annað en sigur kom til greina. Eftir dálítið stress í báðum liðum í byrjun leiks fór að draga til tíðinda og byrjuðu gestirnir með tveimur hálffærum áður en heimaliðið tók völdin. Sigríður Þóra Birgisdóttir og Telma Þrastardóttir komu sér í ágæt færi og þá átti Krístín Tryggvadóttir gott skot yfir og Lára Kristín Pedersen setti boltann í stöngina af löngu færi. Tvívegis voru gestirnir með hendur í boltanum í eigin vítateig en dómari leiksins taldi ekki ástæðu til að dæma vítaspyrnu við lítinn fögnuð heimamanna.

En Telma braut loks ísinn á 38.mínútu með laglegu marki í fjærhornið eftir góða stungu frá Kristínu og staðan 1-0 í hálfleik.

Í síðari hálfleik var Afturelding með yfirhöndina allan tímann. Liðið sótti af kappi og þegar um korter var liðið af hálfleiknum skoraði Sigga laglegt mark af harðfylgni en það var dæmt af eftir nokkra rekistefnu en Sigga var talin rangstæð í aðdraganda marksins. En áfram héldu stelpurnar og stuttu síðar átti Telma skot í stöng eftir mikinn sprett en færið var orðið þröngt og gestirnir önduðu léttar. Telma bætti svo við öðru marki eftir tæpar 70 mínútur eftir fína stungu frá Hafdísi Rún Einarsdóttur.  

Undir lok leiksins skoraði svo Lára Kristín flott mark utan úr teig eftir góðan undirbúning Siggu og úrslitin ráðin, 3-0. Síðustu mínúturnar voru svo eign Aftureldingar. Telma átti skot rétt framhjá eftir glæsilega fyrirgjöf frá Guðrúnu Ýr Eyfjörð sem var svo nálægt því að skora sjálf í uppbótartíma.

Afturelding lék afbragðsvel og átti sigurinn svo sannarlega skilinn. 3-0 urðu lokaúrslit en mörkin hefðu hugsanlega getað orðið fleiri. Liðið hefur reyndar verið að leika vel undanfarið en úrslitin ekki að falla með okkur en nú kom það og liðið er komið úr fallsæti fyrir fjögurra vikna frí sem nú tekur við í Pepsideildinni vegna lokakeppni EM.

Allir leikmenn liðins léku sérlega vel og lögðu sig 100% fram í verkefnið enda hafði John Andrews þjálfari á orði að það mætti alltaf treysta á að ungu stelpurnar sínar legðu sig alla fram þegar þess þyrfti. Telma var ógnandi í sóknarleiknum, skoraði tvö góð mörk og var í miklu stuði ásamt Láru á miðjunni en maður leiksins að þessu sinni er valin Marcia Rosa Silva sem var frábær í leiknum og kvaddi Aftureldingu og Ísland með stíl. Marcia leggur nú skóna á hilluna og ætlar að einbeita sér að þjálfun og vill knattspyrnudeild óska henni velfarnaðar í því og góðs gengi í framtíðinni.