Einar valinn besti leikmaður meistaraflokks karla

KnattspyrnudeildKnattspyrna

Einar gekk til liðs við Aftureldingu fyrir nýliðið tímabil en hann kom frá Njarðvíkingum. Hann er uppalinn hjá Val og lék með þeim upp yngri flokkana og á að baki 17 leiki í efstu deild með Val. Eftir eitt ár hjá HK fór Einar til Njarðvíkur og lék þar í tvö ár áður en hann skipti yfir til Aftureldingar. Seinna árið sitt hjá Njarðvík var Einar valinn í lið ársins í 2.deildinni.

Einar á samtals að baki 101 leik með meistaraflokki og hefur í þeim skorað 19 mörk en í sumar lék Einar 21 leik með Aftureldingu og skoraði tvö mörk.

Anton Ari Einarsson markmaður var valinn efnilegastur en Anton lék alla 22 deildarleiki meistaraflokks í sumar. Anton er einn yngsti markmaður landsins sem er aðalmarkmaður síns liðs en hann var enn löglegur með 2.flokki í sumar. Anton hefur alls leikið 29 meistaraflokksleiki með Aftureldingu og 9 leiki með Hvíta Riddaranum. Hann hefur einnig starfað sem þjálfari hjá knattspyrnudeild undanfarin ár og staðið sig þar með mikilli prýði.   

Alexander Aron Davorsson var markahæstur með 10 mörk í 20 leikjum. Alex er uppalinn hjá Aftureldingu og hefur leikið með meistaraflokki síðan 2010 en hann á einnig meistaraflokksleiki með Hvíta Riddaranum og Leikni Fáskrúðsfirði.

Besti félaginn var svo valinn Heiðar Númi Hrafnsson, varamarkmaður en hann vakti mikla athygli í sumar fyrir líflega framkomu innan og utan vallar. Númi lék fyrri hluta sumars í markinu hjá Hvíta Riddaranum sem náði í undanúrslit í 4.deild en skipti yfir í Aftureldingu í júlí glugganum Antoni til halds og trausts.