Sigur í tvífamlengdum leik í 8 liða úrslitum Coca Cola Bikarsins

Handknattleiksdeild Aftureldingar Handbolti

Strákarnir okkar í meistaraflokki karla sigruðu ÍBV 39 – 35 í 8 liða úrslitum Coca Cola bikarsins í gær eftir tvíframlengdan leik.
Þeir byrjuðu leikinn á að komast 3:0 og 4:1 en þá kom góður kafli hjá ÍBV og þeir snéru leiknum sér í hag.  Brotið var mjög illa á Erni Inga og kom hann ekki meira við sögu í leiknum. En einnig var stórskyttan unga Böðvar Páll Ásgeirsson meiddur og spilaði ekki þennan leik.
Staðan í hálfleik var 11:13 ÍBV voru sterkari lengst af í síðari hálfleiks og náðu mest fjögurra marka forskot en okkar drengir gáfust aldrei upp. Markvörðurinn okkar  Davíð Svansson fór algjörlega á kostum í markinu og varði eins og berserkur og tók að auki nokkrar skemmtilegar sóknir. Jóhann Jóhannsson jafnaði metin, 26:26, 22 sekúndum fyrir lok venjulegs leiktíma og hinum megin varði Davíð enn einn boltann rétt áður en leiktíminn var búin.
Í fyrri framlengingu náðu okkar menn þriggja marka forskoti  en missti það forskot niður áður en hún var úti eftir að ÍBV skoruðu úr tveimur vítaköstum með skömmu millibili.
Þegar kom fram í aðra framlengingu þá tóku strákarnir leikinn í sínar hendur og til að toppa þennan sæta sigur fór Davíð Svansson á vítateiginn og skoraði sigurmarkið.  Stuðningsmenn Aftureldingar, sem skiptu hundruðum að þessu sinni í N1 Höllinni íþróttahúsinu að Varmá, stigu sigurdans á áhorfendapöllunum með leikmenn liðsins dönsuðu úti á leikvellinum.

Mörk Aftureldingar voru  
Jóhann Jóhannsson – 11 / 5, Árni Bragi Eyjólfsson – 6 Hrafn Ingvarsson – 5
Ágúst Birgisson – 4, Elvar Ásgeirsson – 4, Pétur Júníusson – 3 Birkir Benediktsson – 2
Örn Ingi Bjarkason – 1 / 1, Gestur Ólafur Ingvarsson – 1, Davíð Svansson – 1 / 1
Kristinn H. Bjarkason – 1

Nú þarf hver einasti Mosfellingur að mæta í Laugardagshöll 28 febrúar þegar Okkar drengir munu spila í Undanúrslitum Coca Cola Bikarsins.

Innilega til hamingju strákar og Áfram Afturelding.