Afturelding tók á móti HK í uppgjöri efstu liðanna í Mizunodeild kvenna og var spilað að Varmá. Aftureldingarkonur komu mjög ákveðnar til leiks og fyrsta hrinan var þeirra eign frá upphafi. Afturelding sigraði hrinuna 25-11. Önnur hrina var jöfn framan af en Afturelding kláraði hrinuna 25-18. HK konur börðust vel í þriðju hrinu og unnu vel saman sem lið. HK vann þriðju hrinuna 25-17. Það var síðan aldrei spurning um hvorum megin sigurinn mundi lenda því í fjórðu hrinu var Afturelding með mikla yfirburði og komst í 21-7 og vann hrinuna 25-13.
Stigahæstar í liði Aftureldingar voru þær Thelma Dögg Grétarsdóttir og Zaharina Filipova með 15 stig. Auður Anna Jónsdóttir var síðan með 14 stig en einnig spilaði Fjóla Rut Svavarsdóttir mjög vel fyrir Aftureldingu og var með 13 stig og sex blokkir í leiknum. Frelsingi Aftureldingar Alda Ólína Arnarsdóttir var síðan mjög sterk í vörninni og átti mikinn þátt í sigrinum.
Hjá HK var Fríða Sigurðardóttir stigahæst með 12 stig og var sterk í hávörninni með 7 blokkir. Ingibjörg Gunnarsdóttir var með 10 stig.