Afturelding er komið á topp 2. deildar karla eftir magnaða endurkomu í toppslagnum gegn Kára í gærkvöld. Leiknum lauk með 2-3 sigri Aftureldingar. Alexander Már Þorláksson og Ragnar Már Lárusson komu heimamönnum í Kára í tveggja marka forystu á fyrstu 20 mínútum leiksins en Elvar Ingi Vignisson náði að minnka muninn fyrir Mosfellinga úr vítaspyrnu. Staðan var því 2-1 í hálfleik.
Alexander Aron Davorsson jafnaði fyrir Aftureldingu og fullkomnaði Jose Gonzalez endurkomuna með sigurmarki undir lokin.
Afturelding er ásamt Gróttu á toppi deildarinnar en Völsungur fylgir fast á eftir. Húsvíkingar skoruðu fjögur gegn Leikni F. í kvöld og eru jafnir Vestra og Kára, tveimur stigum frá toppliðunum.