Í lok apríl fer fram einn stærsti íþróttaviðburður ársins á Íslandi í Mosfellsbæ. Þá fer fram Öldungamót Blaksambands Íslands sem er stærsta fullorðins íþróttamót sem haldið er á Íslandi ár hvert. Mótið hefur vaxið mjög mikið undanfarin ár. Mótið fer fram að Varmá í lok apríl og má segja að mótið mun leggja Mosfellsbæ undir sig.
Blakdeild Aftureldingar hefur tvisvar áður séð um mótið. Fyrst árið 2002 og voru 90 lið á mótinu þá og spilað á 9 völlum í 2 og hálfan dag. Árið 2010 mættu 125 lið á mótið í Mosfellsbæ og spilað var á 10 völlum. Það ár sem spilað var líka á Reykjalundi. Árið 2016 var mótið haldið í Garðabæ og Álftanesi og tóku 164 lið þátt og í ár má búast við yfir 170 liðum. Til að fá þátttökurétt á mótinu þarftu að vera 30 ára á árinu. Spilað er í 13 kvennadeildum og 8 karladeildum eða eins og þörf þykir. Mótið er opið öllum sem uppfylla þau skilyrði að tilheyra íþróttafélagi innan ÍSÍ og verður amk 30 ára á árinu og getum við ekki neitað liðum um þáttöku.
Iðandi mannlíf í Mosfellsbæ
Um 1500 manns munu vera viðloðandi Varmá, Lágafell og Reykjalund og á rölti í bænum okkar á meðan á mótinu stendur og nýta sér þá þjónustu sem í boði er í bænum og má búast við því að veitingastaðir bæjarins verði þéttskipaðir þau kvöld sem mótið stendur en fyrstu leikir byrja kl. 08:00 föstudaginn 28. apríl og síðustu leikir hefjast vonandi ekki seinna en um kl 15:00 sunnudaginn 30. apríl. Lokahóf öldungamótsins er haldið síðasta kvöldið með hátíðarkvöldverði og balli og verður það haldið í íþróttamiðstöðinni að Varmá þar sem um 1000 blakarar skemmta sér saman og enda hátíðina. Mánudagurinn 1. maí er nýttur í frágang og tiltekt eftir mótið.
Mótið í ár hefur hlotið nafnið Mosöld 2017 og má fylgjast með framgangi mótsins á heimasíðu mótsins. Bæjarbúar hafa verið hvattir til að leigja keppendum utan af landi heimili sín og hafa margir brugðist vel við, en einnig er Varmáskóli nýttur undir gistingu
Mikilvæg fjáröflun
Barna- og unglingaráð blakdeildar mun hafa veg og vanda af veitingasölunni af mótinu og þar koma foreldrar og eldri iðkendur sterkir inn og taka þannig þátt í þessum risaviðburði í blakheiminum. Landslið Ísland í blaki, A lið kvenna og karla ásamt unglingalandsliðunum er boðin dómgæsla á mótinu sem fjáröflun fyrir verkefni ársins og um 1.000.000 kr. er nærri lagi að verðmiðinn fyrir dómgæsluna verði á mótinu en um 500 leikir verða spilaðir á mótinu.
Þetta mót er búið að vera í skipulagningu í yfir ár af hendi blakdeildar Aftureldingar og var byrjað á því að sækja um leyfi til Mosfellsbæjar áður en sótt var um mótið í byrjun apríl 2016, til að fá afnot af íþróttamannvirkjum bæjarins og Varmárskóla en þess má geta að dagatali skólans var breytt með hliðsjón af þessum risa viðburði í bæjarfélaginu þegar ljóst var hvernig dagatalið 2017 leit út og Afturelding hafði fengið mótið 2017.
Hver einasti fermetri nýttur í íþróttahúsum bæjarins
Svona mót er óhemju stórt í sniðum og umfangið er mikið og að miklu að hyggja svo allt gangi upp. Gera má ráð fyrir því að um 1500 manns verði á sveimi í íþróttamiðstöðinni að Varmá þessa daga frá kl 07:30 á morgnana og fram undir miðnætti og þarf því að nýta hvern einasta fermetra sem hægt er í húsinu undir veitingasölu, búningaaðstöðu og keppnisaðstöðu. Einnig mun verða spilað í íþróttahúsi Lágafellsskóla og í íþróttahúsi Reykjalundar.
Að kvöldi fyrsta mótsdags er haldið öldungaþing og verður það haldið í Hlégarði og mun Hlégarður síðan bjóða mótsgestum upp á skemmtun fram eftir nóttu og mun gera það bæði á föstudags- og laugardagskvöldinu ásamt því að vera með veitingasölu þessa daga.
Gefin verður út mótaskrá, gefið út mótslag og búið er að hanna mótsmerki og láta gera mótsfána ásamt því að hanna app mótsins og sérsmíða verðlaunapeninga sem líta út eins og mótsmerkið.
Endilega kíkið við þessa daga og upplifið þennan skemmtilega viðburð og þá miklu gleði sem er við völd að Varmá á meðan á Mosöld 2017 stendur en íþróttamiðstöðin að Varmá verður aðal miðstöð mótsins.