Afturelding sigraði HK, 3:0, í fyrsta leiknum í úrvalsdeild kvenna í blaki, Mikasa-deildinni, þegar liðin mættust á Varmá í Mosfellsbæ í kvöld.
Jafnræði var með liðunum í byrjun fyrstu hrinu en Afturelding náði undirtökunum og vann hana, 25:18. Í annarri hrinu var Afturelding með mikla yfirburði og vann hana að lokum, 25:11. HK konur komu ákveðnar til leiks í þriðju hrinu og voru með forystuna lengi vel. Afturelding var þó aldrei langt undan og náði að jafna leikinn í 19:19, var síðan sterkari á endasprettinum og vann hrinuna, 25:21.
Stigahæstar í liði Aftureldingar voru Velina Apostolova með 18 stig og Thelma Dögg Grétarsdóttir með 12 stig. Í liði HK voru stigahæstar Elísabet Einarsdóttir með 10 stig og Fríða Sigurðardóttir með 8 stig.
Loks mættust karlalið Aftureldingar og HK í Mosfellsbænum og þar vann HK 3:1 í hörkuleik, eða 25:22, 25:21, 21:25 og 25:23.
Stigahæstir í liði HK voru Ólafur Arason og Theódór Óskar Þorvaldsson með 13 stig hvor. Í liði Aftureldingar voru stigahæstir Hilmar Sigurjónsson með 22 stig og Geir Jóhann Geirsson með 10 stig.