Meistaraflokkur kvenna vann sinn fjórða leik í röð þegar þær lögðu lið Goldís 29-33 síðastliðinn þriðjudag í Víkinni. Með sigrunum náðu þær öðru sæti deildarinnar af liði Goldís. Stelpurnar okkar byrjuðu af miklum krafti og skoruðu fyrst 7 mörk leiksins og þegar Goldís hafði skorað sitt fyrsta mark var staðan 1-9. Afturelding hélt öruggri forystu allan tímann og leiddi með 6 – 8 mörkum megnið af leiknum en örlítið dró saman með liðunum undir lokin.
Afturelding hefur einungis tapað einum leik í vetur, en það var á móti FH í október sl. Hið unga lið Aftureldingar hefur því verið að gera góða hluti í utandeildinni á undanförnum mánuðum. Þær eiga heimaleik næsta laugardag kl. 15:00 á móti Gróttu að Varmá. Hvetjum alla Mosfellinga til að mæta og hvetja stelpurnar okkar áfram. Áfram Afturelding