Afturelding vann góðan útisigur á Fylki í Grill66-deild kvenna í handbolta í gærkvöld, 21-22. Afturelding hafði yfirhöndina í leiknum og komst best sex mörkum yfir. Staðan í hálfleik var 8-12 fyrir okkar konur.
Mikil spenna var á lokamínútunum en Fylkir vann sig vel inn í leikinn. Afturelding náði að standast áhlaup Fylkiskvenna og fagnaði vel eins marks sigri. Kiyo Inage og Kristín Arndís Ólafsdóttir voru atkvæðamestar í liði Aftureldingar en þær skoruðu 6 mörk hvor. Þóra María Sigurjónssdóttir skoraði 5 mörk.
Afturelding er á toppi deildarinnar með 31 stig í 15 leikjum, stigi á undan ÍR. Þessi tvö liði berjast um deildarmeistaratitilinn sem veitir beint sæti í Olís-deildina á næstu leiktíð.
Næsti leikur Aftureldingar er gegn Gróttu á Seltjarnarnesi föstudaginn 29. mars kl. 20.00. Lokaumferðin fer svo fram föstudaginn 5. apríl en þá mætir Afturelding í Kaplakrika og leikur gegn FH.