Topplið á móti botnliði voru helstu fyrirsagnir fyrir leikinn. Allt satt og rétt í því en ef lesið var á milli línanna þá átti þetta nú bara að vera formsatriði fyrir sterkt lið Akureyringa. Það er ekkert óeðlilegt við það. Afturelding búið að spila mjög illa í síðustu 2 leikjum og á sama tíma er lið Akureyringa að spila vel og voru fyrir leikinn taplausir.
Segja má að leikmenn Aftureldingar hafi mætt pressulausir norður á Akureyri og staðráðnir að njóta þess að spila handbolta.
Leikurinn byrjaði vel fyrir gestina, góð vörn og auðveld hraðupphlaupsmörk. Gaman að sjá vörnina smella með þá Hrafn og Böðvar í hjarta varnarinnar. Um miðbik fyrri hálfleiks var Afturelding með 5 marka forystu, 7-12. Þá kom Stefán Uxi í mark heimamanna og hreinlega lokaði markinu. Akureyri náði að jafna leikinn í 13-13. Hálfleikstölur voru 14-14.
Okkar drengir virðast hafa farið vel yfir málin í hálfleik og svo virðist sem Reynir þjálfari hafið troðið í leikmenn hrúgu af sjálfstrausti. Því margir höfðu áhyggjur af því að okkar menn mundu brotna við að tapa niður forustunni. Annað kom á daginn! Afturelding skoraði fyrstu 4 mörk seinni hálfleiks og lögðu þar með grunninn af frábærum sigri. Afturelding hélt forystu allan seinni hálfleikinn og Akureyringar áttu lítið í virkilega góða og þétta vörn okkar manna. Davíð varði eins og óður í markinu. Sóknarleikur liðsins var góður. Hann var yfirvegaður og góð hreyfing á leikmönnum sköpuðu okkur færi í hverri sókn. Það er breyting frá fyrstu 4 leikjum tímabilsins.
Fyrstu stigin því komin í hús, loksins segjum við öll.
Áhangendur þurfa ekki að vera hissa á þessari frammistöðu! Það má frekar segja að loksins hafi liðið sýnt sitt rétta andlit.
Vonandi að leikmenn haldi áfram á þessari braut. Njóti þess að spila handbolta og þá er líklegt að áhorfendur fari aftur að fjölmenna á okkar leiki og stigin haldi áfram að detta inn.
Áfram Afturelding