Mikil þversögn í fyrirsögninni en upplifunin svipuð og eftir leikinn á móti HK.
Það var botnslagur í Vodafone höllinni í gær. Mikið í húfi og mikilvægt fyrir Aftureldingu að tapa ekki og missa Valsara þremur stigum framúr.
Leikurinn byrjaði eins og margir leikir hafa byrjað í vetur, illa. Valsmenn komust í 4-1 og leikmenn Aftureldingar virkuðu utan við sig og óöruggir. Þetta er eitthvað sem undirrituðum finnst vont að sjá leik eftir leik. Spurning hvort okkar menn þurfi að breyta einhverjum rútínum fyrir leik svo það þurfi ekki alltaf að eyða púðri í að elta andstæðingana strax eftir 5 mínútur.
En eins og oft áður þá rönkuðu okkar menn við sér og jöfnuðu leikinn. Leikurinn var í járnum allan tímann og liðið skiptust á að hafa forustuna. Sverrir jafnaði leikinn rétt fyrir hálfleik og staðan jöfn þegar liðin gengu til búningsherbergja. Seinni hálfleikur var keimlíkur þeim fyrri. Valsarar höfðu þó frumkvæðið lengst af. Þegar um 10 mínútur voru til leiksloka, komst Afturelding yfir. Síðustu mínútur leiksins voru æsispennandi. Þegar rúmar 2 mínútur voru eftir, fékk Afturelding tækifæri á að gera út um leikinn. Upplagt færi fór forgörðum og Valmenn héldu í sókn og náðu að jafna metin.
29-29 og 1 mínúta eftir. Leikmenn Aftureldingar halda í sókn. Taka svo leikhlé þegar 28 sekúndur voru eftir. Bekkurinn hjá Val fær spjald og þ.a.l. ný sókn. Eftir um 10 sekúndur köstum við boltanum beint í hendurnar á Völsurum, þeir bruna upp og komast yfir 30-29. 16 sek eftir og við höldum í sókn, Hilmar inn úr horninu, varið, Pétur nær frákastinu og jafnar metin. Valur tekur leikhlé, 6 sekúndur eftir. Valmenn fá að koma allt og nálægt og ná ágætis skoti sem Davíð ver og þeir fá fríkast sem ekki nýttist.
Niðurstaðan 1 stig og aftur eru vonbrigði að ná ekki báðum. Þó var líka gríðarlega mikilvægt að ná að jafna og ná þó einu stigi.
Liðið að spila ágætlega en nokkrir leikmenn töluvert frá sínu besta. Jóhann með 8 mörk og öruggur á vítalínunni. Loksins nær liðið að nýta öll sín vítaköst.
Undirritaður hefði þó viljað sjá betri varnarleik og 6-0 vörnin ekki að virka sem skildi. Þetta var aðall liðsins og það munar greinilega mikið um Böðvar Pál sem er frá vegna axlarmeiðsla. Allt og mikið að mörkum frá línumanni Valsara.
Sóknarleikurinn hefur verið góður í síðustu leikjum en það þarf allt að smella, bæði vörn og sókn.
En vissulega jákvætt að stigin séu að detta inn, þá þau hefðu mátt vera fleiri.
Áfram Afturelding.