Það voru stálin stinn sem mættust í Safamýrinni á fimmtudaginn sl. Leikmenn Fram byrjuðu leikinn betur og komust í 4-1. Þá var eins og okkar leikmenn áttuðu sig á því að leikurinn var byrjaður og fóru að spila handbolta. Framarar höfðu þó undirtökin og komust í 8-4. En þá small vörn Aftureldingar og Davíð fór í gang í markinu. Frábær kafli þar sem forusta Framara varð að engu og Afturelding komst yfir. Leikmenn tókust hart á og tónninn var gefinn. Leikmenn Aftureldingar urðu fyrir áfalli þegar línumaðurinn Einar Héðinsson meiddist mjög illa og þurfti að fara út af á börum. Það kom í ljós að Einar var illa ökklabrotinn og verður frá í nokkra mánuði. Það er mikil synd því Einar var búinn að spila sig inn í byrjunarliðið og var búinn að bæta leik sinn heilmikið. Mikið áfall fyrir Einar og Aftureldingu. Það er vonandi að Einar nái skjótum bata og komi aftur sterkur til leiks.
Hálfleikstölur voru 11-14 Aftureldingu í vil.
Seinni hálfleikur var eign Aftureldingar. Frábær vörn og markvarsla ásamt öguðum og góðum sóknarleik skóp góðan 5 marka sigur. Annað árið í röð sigrar Afturelding Fram í Safamýrinni. Það var svipað upp á teningnum í þessum leik og í leiknum fyrir akkúrat ári síðan. Leikmenn Fram kvörtuðu sáran undan fastri vörn Mosfellinga og fremstur í flokki var þjálfari Framara Einar Jónsson. Hann fékk rauða spjaldið að leik loknum og fer væntanlega í bann fyrir uppátækið.
Niðurstaðan er frábær sigur og gefur vonandi leikmennum aukið sjálfstraust fyrir komandi átök. Deildin er gríðarlega jöfn og skemmtileg. Það má segja að liðið sé búið að vera óheppið að hafa ekki náð í fleiri en 4 stig. Leikirnir á móti HK og FH töpuðust með einu marki og í leiknum á móti HK köstuðu leikmenn Aftureldingar hreinlega frá sér sigrinum. En vonandi er þetta sem koma skal og stigin fara að detta inn. Með þessari spilamennsku er ansi líklegt að það gerist.
Áfram Afturelding