Gríðarleg spenna var á Ásvöllum í gær eins og gefur að skilja þegar framlengja þarf í tvígang til að knýja fram úrslit.
Undir lok venjulegs leiktíma voru það okkar menn sem knúðu fram framlengingu. Haukar voru þá tveimur mörkum yfir og með boltann þegar rúm mínúta var eftir. Þá fór af stað hröð atburðarrás eftir að Haukar tóku leikhlé sem leiddi til þess að okkar menn jöfnuðu leikinn.
Dæmdur var fótur á Brynjólf mjög fljótlega og Kristinn Bjarkason brunaði fram og í gegnum vörn Hauka. Minnkaði hann muninn þegar um 50 sekúndur voru eftir. Okkar drengir fóru langt fram völlinn og Janus keyrði strax í gegnum vörnina vinstra megin. Ekki alveg nægilega gott færi að mér sýndist og kannski reiknaði hann með því að brotið yrði á sér. Janus vippaði í þverslána. Strákarnir okkar höfðu því hálfa mínútu eða svo til að jafna. Sókninni lauk með því að Þrándur Gíslason jafnaði leikinn af línunni um tveimur sekúndum fyrir lok venjulegs leiktíma.
Jóhann Gunnar Einarsson var markahæstur okkar manna með 8/4 mörk. Birkir Benediktsson kom inn á fyrir Jóhann og skoraði 5 mörk. Gunnar Malmquist skoraði 5 mörk og þar á meðal sigurmark leiksins. En þegar hann var ekki inn á skoraði Kristinn Bjarkason þrjú mörk í þremur skotum. Einnig má nefna að báðir línumennirnir knúðu fram sitt hvora framlenginguna, Þrándur Gíslason og Pétur Júníusson. Alls skoruðu níu leikmenn fyrir Aftureldingu.
Rothöggið var á sínum stað og vægast sagt frábær stemmning, dansað og sungið allan leikinn.
Strákarnir okkar eru nú 2-1 yfir í úrslitarimmunni um Íslandsmeistaratitilinn og er næsti leikur að Varmá á morgun mán 16.maí kl 15:00. Forsala miða hefst kl 9:00 í fyrramálið.
Nú verðum við að stútfylla Varmá af Mosfellingum, syngja og tralla Ó UMFA, Ó UMFA, Við elskum þig, Við elskum þig.