Afturelding hefur ráðið Svövu Ýr Baldvinsdóttur sem þjálfara meistaraflokks kvenna í handknattleik, en Svava Ýr mun einnig þjálfa 3. flokk kvenna hjá félaginu líkt og undanfarin ár.
Svava Ýr er Mosfellingur í húð og hár, fædd og uppalin hér í bænum, menntaður íþróttakennari og flestum bæjarbúum kunn fyrir að hafa m.a. verið með íþróttaskóla barnanna sl. 22 ár.
Svava hefur mikla reynslu af handknattleik, bæði sem leikmaður og þjálfari. Hún spilaði á árum áður með yngri flokkum Aftureldingar en fór síðan yfir til Víkings (þar sem enginn meistaraflokkur var starfræktur í Mosfellsbæ á þeim tíma) og spilaði með meistaraflokk félagsins í mörg ár, eða þar til hún lagði skóna á hilluna. Sem leikmaður varð Svava þrefaldur Íslands- og bikarmeistari og spilaði með yngri landsliðum kvenna sem og með A-landsliðinu.
Sem þjálfari hefur Svava þjálfað yngri flokka hjá Víking, en einnig yngri landslið kvenna sem og verið aðstoðarþjálfari A-landsliðs kvenna. Hún var aðstoðarþjálfari meistaraflokks kvenna hjá Haukum og fyrir fjórum árum þjálfaði hún einnig sameiginlegt lið meistaraflokka kvenna frá Aftureldingu og Fjölni sem keppti utan deilda. Hjá Aftureldingu hefur hún þjálfað bæði yngir flokka kvenna og karla. Síðustu árin verið hún þjálfað 3. og 4. flokk kvenna en þær stelpur eru einmitt stór hluti meistaraflokks Aftureldingar í dag.
Aðstoðarþjálfari Svövu í vetur verður Judit Esztergal, en hún var á árum áður burðarás bæði í liði ÍBV og Hauka, en auk þess spilaði hún með FH. Svava og Judit hafa áður þjálfað saman, bæði meistaraflokk Hauka og yngri landslið kvenna. Það er ljóst að Afturelding hefur fengið gríðarlega reynslumikla þjálfara í meistaraflokkinn og verður spennandi að fylgjast með þeim og þessu unga en efnilega liði á komandi árum.