Fyrri daginn fóru fram æfingabúðir þar sem allur hópurinn tók þátt, þ.m.t. Willem C. Verheul yfirþjálfari félaganna og liðstjórar. Seinni daginn var haldið mót þar sem keppt var í kata, kumite og gladiator. Óhætt er að segja að íslenski hópurinn sem gekk undir nafninu Team Iceland hafi slegið í gegn. Hópurinn rakaði inn verðlaunum og stigu liðsmenn á verðlaunapall í nánast öllum sínum flokkum. Hópurinn sýndi framúrskarandi liðsheild enda æfa afreksiðkendur þessara tveggja félaga, Aftureldingar og Fjölnis, saman þrisvar í viku. Þetta er í þriðja sinn sem félögin skipuleggja Skotlandsferð í október og því má segja að hún sé að verða fastur liður í æfingaári beggja félaga.