Leikið var á gerfigrasvellinum á Álftanesi í blíðskaparveðri. Álftanesliðið er ekkert lamb að leika sér við og einkenndist fyrri hálfleikur af mikilli baráttu á báða vegu. Fátt var um færi en þó áttu okkar stúlkur skot í þverslá um miðjan hálfleikinn en inn vildi boltinn ekki og markalaust var eftir frekar daufan fyrri hálfleik.
Síðari hálfleikur hófst með sömu baráttunni í algleymingi en smám saman fóru gestirnir að finna taktinn og loks brást varnarmúr Álftnesinga eftir um klukkutíma leik. Eftir þunga sókn féll boltinn fyrir Sigrúnu Gunndísi í miðjum vítateignum og hún tók laglega niður knöttinn og hamraði hann í markhornið uppi, óverjandi fyrir markvörð Álftaness. Frábært mark.
Eftir þetta var Afturelding/Fram með undirtökin og Stefanía Valdimarsdóttir jók forystuna þegar hún fylgdi vel á eftir vítaspyrnu frá Valdísi Ósk sem var varin en Stefanía var fyrst að átta sig og staðan orðin 2-0 fyrir Mosfellinga.
Hart var barist það sem eftir lifði leiks og ekkert gefið eftir í návígjum en þrátt fyrir ágætar tilraunir komu ekki fleiri mörk. Eitt mark var réttilega dæmt af Álftanesi í uppbótartíma og þá átti Stefanía hörkuskot í slá en lokastaðan 2-0 fyrir Aftureldingu/Fram og liðið því með fullt hús stiga eftir tvær umferðir.
Sigurinn var liðsheildarinnar að þessu sinni og með þolinmæði og baráttu var mikilvægum sigri landað. Sigrún Gunndís fær þó hrós dagsins fyrir frábært mark. Afturelding/Fram er því með sex stig eftir tvær umferðir líkt og Fjölnir og Völsungur sem þó hefur leikið leik meira. Næst mætast einmitt Afturelding/Fram og Fjölnir 1.júní næstkomandi í Grafarvogi.
Afturelding/Fram: Selma, Matthildur (Katla), Lilja Vigdís, Valdís Ósk (F), Inga Laufey, Svandís (Eydís Embla), Eva Rut (Snjólaug), Margrét Regína (Esther Rut), Sigrún, Ester Lilja (Amanda Mist), Stefanía