Afturelding mætir Njarðvík í 2.deildinni

KnattspyrnudeildKnattspyrna

Okkar menn tóku eitt stig í nýliðinni ferð á Suðurnesin þegar liðið mætti Reyni í Sandgerði og gerði þar 2-2 jafntefli með mörkum Elvars Inga Vignissonar og Einars Marteinssonar. Sá leikur var einnig athyglisverður fyrir þær sakir að feðgar stýrðu þar liðunum en Egill Atlason, sonur Atla Eðvaldssonar þjálfara Aftureldingar er spilandi þjálfari Reynismanna.

Næstu Suðurnesjamenn mæta hinsvegar á spegilsléttann Varmárvöll á föstudag kl 20:00 en það verða Njarðvíkingar sem fyrr segir. Njarðvík hefur reyndar átt erfitt uppdráttar í deildinni í sumar og sitja á botninum með aðeins eitt stig. Það væri því auðvelt að gera þau mistök að hrósa sigri fyrirfram en ekki má gleyma að Njarðvík átti lið í 1.deild fyrir fáum árum og þar leynast ýmsir kunnir knattspyrnumenn, þeirra þekktastur markamaskínan Guðmundur Steinarsson sem skoraði einmitt fyrir Njarðvík í síðasta leik.

Fréttaritara er ekki kunnugt um forföll hjá okkar mönnum en Alexander Aron Davorsson missti af síðasta leik sem útskýrir það líklega afhverju hann var ekki á meðal markaskorara en Alli hefur gert 7 mörk í sex leikjum og er markahæstur í deildinni sem stendur.

Búast má við að Axel Óskar Andrésson verði í byrjunarliði Aftureldingar að vanda en Axel heldur að leik loknum á vit nýrra ævintýra en hann hefur gert samning við enska 1.deildar liðið Reading og flytur búferlum þangað síðar í mánuðinum.

Knattspyrnudeild hvetur Mosfellinga til að fjölmenn á völlinn og hvetja strákana sína áfram.