Axel á leið í atvinnumennskuna

Knattspyrnudeild Knattspyrna

Okkar efnilegi knattspyrnukappi Axel Óskar Andrésson hefur samið við Reading í Englandi og mun leika með liðinu næstu árin. Axel sem er sextán ára gamall hefur lengi stefnt að þessu marki og það er langt síðan það var ljóst að hér færi afar efnilegur piltur sem ætti alla möguleika á að á langt í fótboltanum.

Axel á að baki 3 leiki með meistaraflokki Aftureldingar í Borgunarbikarnum og hann hefur leikið alla 7 leiki liðsins í 2.deildinni í sumar. Þá hefur hann leikið 8 leiki með U17 landsliðinu. Axel var mikilvægur hlekkur í frábæru liði 3.flokks karla sem lék til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn í fyrrahaust og komst í undanúrslit árið áður.

Axel hefur einnig verið til mikillar fyrirmyndar utan vallar í störfum sínum fyrir Aftureldingu og verið m.a. aðstoðarþjálfari hjá yngri flokkunum ásamt því að taka að sér dómgæslu og önnur verkefni með myndarbrag þegar til hans hefur verið leitað. Hann mun hefja nám við Verslunarskólann í haust í fjarnámi en Lára Berglind Helgadóttir móðir hans mun fylgja honum til Englands ásamt yngri bræðrum hans tveimur en Andrés Guðmundsson faðir hans mun gæta hagsmuna fjölskyldunnar hér heima til að byrja með og sjá um starfsemi Skólahreysti sem fjölskyldan hefur rekið um árabil.

Knattspyrnudeild vill óska Axel innilega til hamingju með þennan frábæra árangur og alls hins besta á framabrautinni í knattspyrnuheiminum. Axel kveður félagið sitt, í bili að minnsta kosti, á Varmárvelli á morgun, föstudag 27.júní þegar meistaraflokkur karla tekur á móti Njarðvík í 2.deild karla og því um að gera að mæta og kíkja á kappann !

Áfram Afturelding !