Öruggur sigur hjá strákunum

Knattspyrnudeild Knattspyrna

Leikurinn fór rólega af stað í blíðviðrinu á Varmárvelli og lítið að frétta fyrstu tíu mínúturnar. Njarðvíkingar fengu þá ódýra aukaspyrnu utan teigs og uppúr henni kom mark sem þruma úr heiðskíru lofti. Hugi markmaður misreiknaði sig eitthvað og skyndilega lá boltinn í netinu og gestirnir komnir yfir. Okkar menn ruku í sókn og Alexander Aron Davorsson átti tvö ágæt færi með stuttu millibili, fyrst varði markmaður Njarðvíkur aukaspyrnu frá Alla og stuttu síðar skallaði Alli að marki en aftur var varið.

Afturelding jók pressuna og tók öll völd á vellinum. Það skilaði sér með tveimur mörkum með stuttu millibili eftir um hálftíma leik. Fyrst var að verki Andri Hrafn Sigurðsson þegar boltinn barst fyrir markið og Andri lagði hann snyrtilega í fjærhornið og jafnaði metin. Tveimur mínútum síðar var komið að Magnúsi Erni Þórssyni sem smellti boltanum hnitmiðað uppí markhornið frá vítateigslínu eftir þunga sókn heimamanna.

Afturelding var mun betri aðilinn fram að hléi og átti nokkur hálffæri en ekki urðu mörkin fleiri og staðan 2-1 í hálfleik.

Síðari hálfleikur byrjaði afar rólega og ekkert fréttnæmt fyrr en á 65.mínútu þegar Alli átti ágætt skot sem var varið. Á 75.mínútu dró loks til tíðinda þegar Elvar Freyr Arnþórsson skoraði með skalla eftir horn og staðan orðin 3-1.

Síðustu mínúturnar sátu okkar menn aðeins aftar og beittu skyndisóknum og áttu bæði Elvar Ingi Vignisson og Sigurpáll Melberg Pálsson ágæt færi rétt fyrir leikslok og á lokasekúndunum fékk Andri Hrafn gott færi en inn vildi boltinn ekki og úrslitin 3-1 fyrir strákana okkar.

Afturelding er nú í fjórða sæti deildarinnar með 14 stig, þremur stigum á eftir toppliði Gróttu. Næstu tveir leikir eru gríðarlega mikilvægir fyrir okkar menn en fyrst heimsækja þeir ÍR á næsta fimmtudag áður en Grótta kemur í heimsókn á Varmárvöll.

Strákarnir okkar spiluðu ágætlega en þó var á köflum sem menn væru eitthvað að spara sig fyrir næstu leiki. Sigurinn var alger skyldusigur, á heimavelli gegn botnliðinu og hefði e.t.v. mátt vera meira afgerandi en stigin eru kærkomin og liðið enn líklegt til að blanda sér í toppbaráttuna. Það er erfitt að nefna einn leikmann öðrum fremur, Einar Marteinsson var öruggur að vanda og Andri Hrafn Sigurðsson stóð sig vel en maður leiksins að þessu sinni er valinn Magnús Örn Þórsson sem átti fínan leik á miðjunni og skoraði glæsilegt mark.