Góður árangur sunddeildarinnar á AMÍ og UMÍ

Sunddeild Aftureldingar Sund

Afturelding átti keppendur á tveimur  stórum sundmótum í júní. Mótin eru aldursskipt lágmarkamót og haldin í lok sundtímabils ár hvert. Á AMÍ (Aldursflokkameistarmóti Íslands)  kepptu 15 ára og yngri sundmenn og á UMÍ (Unglingameistaramóti Íslands) kepptu 15-20 ára sundmenn. AMÍ fór fram í Vatnaveröld í Reykjanesbæ helgina 13. – 15. júní. Á mótinu kepptu fjórir sundmenn fyrir hönd Aftureldingar, þau: Aþena Karaolani, Bjarkey Jónasdóttir, Bjartur Þórhallsson og Jón Goði Ingvarsson. Okkar sundfólk náði mjög góðum árangri á mótinu en öll bættu þau tíma í sínum greinum auk þess sem unnið var til fjölda verðlauna. Bjartur Þórhallsson vann til gullverðlauna í 200m skriðsundi og 1500m skriðsundi og ber þar með aldursflokkameistaratitilinn í flokki 13-14 ára drengja í þeim greinum, en  auk þess vann hann þrjú silfurverðlaun og ein bronsverðlaun á mótinu. Jón Goði vann einnig til verðlauna í flokki pilta 15 ára en hann fékk silfurverðlaun í 100m bringusundi og bronsverðlaun fyrir 200m bringusund.

UMÍ fór síðan fram í Ásvallaug í Hafnafirði dagana 28. og 29. júní en þar kepptu fimm sundmenn fyrir hönd Aftureldingar, þau: Aþena Karaolani, Davíð Fannar Ragnarsson, Huginn Hilmarsson, Jón Goði Ingvarsson og Karlotta María Þrastardóttir. Góður árangur náðist einnig á því móti en mikið var um bætingar hjá sundmönnum okkar og þeir Huginn og Davíð unnu til verðlauna. Davíð vann bronsverðlaun í 50m skriðsund í flokki 15-17 ára og Huginn vann til þriggja bronsverðlauna í 200m baksundi, 200m skriðsundi og 400m skriðsundi í flokki 18-20 ára.

Mjög góður endir á tímabilinu hjá sundmönnunum okkar. Framundan er síðan mánaðar sumarfrí en næsta tímabil hefst 4. ágúst næstkomandi á 12 daga æfingaferð til Grikklands.