Barátta gegn Blikum en engin stig

Knattspyrnudeild Knattspyrna

Fyrirfram mátti búast við erfiðum leik. Dagsskipun okkar var að verjast skynsamlega og leyfa Blikum ekki að fá tíma til að spila sinn bolta enda ekki skortur á hættulegum sóknarmönnum í liði þeirra. Leikurinn hófst rólega en heimastúlkur gerðu sig þó líklegar og eftir að Mist hafði varið vel hrökk boltinn til Aldísar Köru Lúðvíksdóttur sem skoraði fyrsta mark leiksins eftir níu mínútur. Okkar stúlkur létu það þó ekki slá sig útaf laginu og vörðust vel það sem eftir lifði fyrri hálfleiks.

Seint í hálfleiknum varð dapurlegt atvik þegar Aldís Kara sparkaði í Helen Lynskey eftir að búið var að dæma aukaspyrnu og slapp hún þar með skrekkinn og gula spjaldið þar sem myndbandsupptaka sýnir greinilega að annar litur hefði verið meira viðeigandi. En staðan í leikhléi 1-0 og leikplan Aftureldingar að ganga ágætlega upp.

Strax í upphafi síðari hálfleiks sofnuðu stelpurnar okkar aðeins á verðinum og Guðrún Arnardóttir skoraði annað mark Breiðabliks og þá var ljóst að róðurinn yrði erfiður. Breiðablik sótti meira eftir það og átti nokkur prýðisfæri en Afturelding varðist af kappi og átti nokkrar sóknartilraunir án þess að ná að minnka muninn. Telma Hjaltalín Þrastardóttir og Rakel Hönnudóttir bættu við mörkum fyrir Breiðablik í síðari hálfleik og leiknum lauk með 4-0 sigri þeirra grænklæddu og verður að segjast að sigur þeirra var nokkuð öruggur og sanngjarn þó að minnsta kosti tvö markanna hafi verið í ódýrara lagi.

Aftureldingarliðið varðist vel og skipulega í fyrri hálfleik og það var aðeins augnabliks einbeitningarleysi sem kostaði þetta eina mark Blika í hálfleiknum. Frænkurnar Ef og Hefði eru enn að ræða um hvernig leikurinn hefði þróast ef við hefðum náð að halda hreinu í leikhléi og Blikar misst mann af velli með rautt spjald en um það þýðir auðvitað ekki að fást. Í síðari hálfleik kom styrkur Breiðabliks betur í ljós um leið og það dró aðeins af okkar liði og þær grænu kláruðu leikinn nokkuð örugglega.

Lið Aftureldingar lék fínan varnarleik lengst af og liðsheildin var enn og aftur okkar aðalsmerki. Sóknarmenn okkar, Sigga og Kristín Þóra héldu varnarmönnum Blika við efnið og á miðjunni börðust Helen, Kristrún, Berglind og Sandra um alla bolta og gáfu heimaliðinu engan frið. Varnarlínan hafði mikið að gera, Inga og Amy voru góðar, Eva átti skínandi góðan leik og Mist varði nokkrum sinnum mjög vel og átti virkilega góðan dag. Brynja, Stefanía og Valdís komu svo inná í síðari hálfleik og leystu af þreytta liðsfélaga sína.

Best í liði Aftureldingar að þessu sinni er valin Hrefna Guðrún Pétursdóttir sem átti stórleik í miðri vörninni og vann hverja tæklinguna á fætur annarri og sumar býsna mikilvægar. Hrefna hefur leikið mjög vel undanfarið en hún er ennþá aðeins sautján ára gömul en hefur þrátt fyrir það verið fastamaður í vörninni hjá okkur síðan um mitt síðasta sumar.

Lið Aftureldingar:
Mist
Inga – Amy – Hrefna – Eva
Berglind (Stefanía 64) – Sandra (Brynja 54) – Kristrún
Helen
Sigga – Kristín Þóra (Valdís 79)