Aldís Mjöll Helgadóttir gerir nýjan samning við Aftureldingu.

KnattspyrnudeildKnattspyrna

Aldís Mjöll hefur spilað fyrir meistaraflokk Aftureldingar frá stofnun hans eða í rúm 5 ár, hún var aðeins 16 ára þegar hún lék sinn fyrsta leik í meistaraflokki og hefur síðan verið ein af máttarstólpum liðsins. Hún á að baki 58 leiki og hefur skorað 5 mörk fyrir Aftureldingu í Íslandsmóti og Visa-bikar, fyrir utan fjölda æfingarleikja í vetrarmótum. 
Aldís Mjöll gat ekkert spilað með liðinu í sumar þar sem hún sleit krossband í apríl sl. Hún hefur verið í stöðugri þjálfun síðan og er byrjuð á léttum æfingum með liðinu. Hún stefnir á að vera komin í fullt leikform fyrir fyrsta leik í Pepsídeildinni næsta vor. 
„Það er stór stund að fá Aldísi aftur í hópinn, þar sem hún er strax komin í gott form og það lítur mjög vel út með endurhæfinguna. Hún hefur greinilega lagt mikið á sig í sumar til að komast aftur í form. Hún er þrátt fyrir ungan aldur, mjög reynslumikill leikmaður og frábært dæmi um leikmann sem hefur hjarta sem slær í takt við uppeldisfélagið sitt.“ sagði John Andrews þjálfari við undirskrift samningsins. John bætti við að „við í Aftureldingu erum mjög ánægð með að geta haldið öllum okkar bestu leikmönnum innan félagsins þar sem það virðist vera töluverð hreyfing á öðrum sterkum leikmönnum á milli liða í vetur.“
„Það er frábært að vera komin aftur eftir meiðslin í vor. Ég hlakka mikið til að byrja að æfa á fullu. Við erum með fullt af ungum og efnilegum stelpum og besta þjálfara landsins. Sumarið 2012 verður okkar sumar! „ sagði Aldís Mjöll við sama tilefni.