Afturelding hefur fengið liðsstyrk í Inkasso-deild kvenna því Darian Powell frá Bandaríkjunum hefur gengið til liðs við Aftureldingu. Powell hefur æft Aftureldingu undanfarna daga og hefur staðið sig mjög vel. Powell er framherji kemur til liðsins frá Selfossi.
Powell lék með Marquette-háskólanum í Bandaríkjunum áður en hún gekk til liðs við Selfyssinga en hún kom við sögu í fjórum leikjum með liðinu í Pepsi Max-deildinni í sumar þar sem hún skoraði eitt mark.
„Hún hefur æft með okkur undanfarnar vikur og litið vel út. Hún mun styrkja okkar unga lið mikið enda hefur okkur ekki gengið nægilega vel að skora mörk í sumar. Við erum að byggja upp gott knattspyrnulið í Mosfellsbænum og hún kemur þar sterk inn,“ sagði Júlíus Ármann Júlíusson, þjálfari Aftureldingar, í samtali við mbl.is í dag.
Afturelding er í sjöunda sæti Inkasso-deildarinnar með 7 stig eftir fyrstu sex leiki sína, tveimur stigum frá fallsæti, en liðið mætir Tindastól á morgun í 7. umferð deildarinnar og verður Powell lögleg með liðinu í þeim leik.