Penninn hefur verið á lofti undanfarna daga en fimm leikmenn hafa gengið frá nýjum tveggja ára samningi við Aftureldingu. Þetta eru Alexander Aron Davorsson, Andri Már Hermannsson, Elvar Ingi Vignisson, Jason Daði Svanþórsson, og Jökull Jörvar Þórhallsson. Allir áttu þeir stóran þátt í sigri Aftureldingar í 2.deildinni síðastliðið sumar.
Alexander Aron er uppalinn hjá Aftureldingu og einn af reynslumestu leikmönnum liðsins. Alexander hefur skorað 52 mörk í 197 meistaraflokksleikjum á ferli sínum og mun vonandi bæta við leikjum og mörkum í safnið næsta sumar.
Andri Már stóð vaktina af prýði í hægri bakverði síðastliðið sumar eftir að hafa komið til Aftureldingar frá Gróttu. Andri spilaði alla leiki Aftureldingar í 2. deildinni síðastliðið sumar.
Elvar Ingi er sterkur framherji sem ólst upp hjá Aftureldingu. Hann skoraði sex mörk í tíu leikjum síðastliðið sumar en leikirnir urðu færri en vonir stóðu til vegna meiðsla. Elvar var á láni frá Selfossi síðastliðið sumar en er nú kominn alfarið heim í Mosfellsbæ.
Jason Daði vakti athygli fyrir leikni sína í 2. deildinni síðastliðið sumar en hann var á bekknum í liði ársins í deildinni, liði sem fyrirliðar og þjálfarar völdu. Jason er 18 ára gamall og á framtíðina fyrir sér.
Jökull Jörvar stimplaði sig af miklum krafti inn í lið Aftureldingar síðastliðið sumar. Jökull skoraði þrjú mörk í tuttugu leikjum á miðjunni á sínu fyrsta tímabili í meistaraflokki. Afturelding fagnar undirskriftum þessara leikmanna og vonar að þeir haldi áfram að vaxa í Inkasso-deildinni næsta sumar.