Heimaleikur á fimmtudag – toppbaráttan á fullu

KnattspyrnudeildKnattspyrna

Það eru aðeins þrjár umferðir eftir og leikurinn við Gróttu er næstsíðasti heimaleikur okkar manna í sumar. Afturelding er með sín örlög í eigin höndum fyrir lokasprettinn en strákarnir eru í öðru sæti deildarinnar með 36 stig, einu stigi á eftir toppliði HK (sem við spilum við í næstu umferð).

KV kemur svo stigi á eftir okkur en þessi þrjú lið virðast líklegust til að hreppa tvö efstu sætin sem gefa þáttökurétt í 1.deild að ári. Grótta er reyndar ekki úr leik heldur og tölfræðilega eru ÍR og Dalvík/Reynir ennþá með í baráttunni. Lokaspretturinn í deildinni á því eftir að vera rosalegur ef að líkum lætur.

Afturelding vann Sindra á heimavelli í síðasta leik og ætla sér að halda áfram á sigurbrautinni. Þegar okkar strákar mættu Gróttu í fyrri leik liðanna á Seltjarnarnesi hafði Grótta betur þannig að nú vilja strákarnir okkar snúa við blaðinu og taka öll stigin. Afturelding vann báða leikina í deildinni í fyrra og vonandi hafa okkar menn eitthvað tak á Seltirningum og klára verkefnið með sigri.

Knattspyrnudeild hvetur Mosfellinga til að fjölmenna á völlinn – Áfram Afturelding !

Mynd: Raggi Óla