Eyjastúlkur sterkari

Knattspyrnudeild Knattspyrna

Leikurinn átti upphaflega að fara fram á mánudag en vegna veðurs var honum frestað um einn sólarhring. Vestmannaeyingar reyndust sterkari og unnu 3-0 og eru komnar í annað sæti í deildinni og standa vel að vígi fyrir lokasprettinn en okkar stelpur þurfa helst nokkur stig enn til að tryggja sæti sitt í deildinni.

Það var ljóst strax í upphafi leiks að gestirnir voru ákveðnir í að gefa ekki á sér neinn höggstað. ÍBV fékk víti snemma leiks sem Megan markvörður varði glæsilega en hún kom ekki við vörnum stuttu seinna þegar Bryndís Jóhannesdóttir fylgdi vel á eftir þungri sókn og ÍBV komið yfir eftir aðeins níu mínútur. Þær hvítklæddu bættu við öðru marki seint í hálfleiknum þegar Þórhildur Ólafsdóttir skoraði og staðan 2-0 í hálfleik.

Afturelding lék mun betur í síðari hálfleik, héldu boltanum betur innan liðsins og áttu nokkrar lofandi sóknir án þess þó að ná að skora. Eftir því sem leið á hálfleikinn færði John þjálfari fleiri menn í sóknina og freistaði þess að ná að minnka muninn en vörn Vestmanneyinga hélt og í blálokin bættu þeir við þriðja markinu með laglegu langskoti. Úrslitin því 3-0 fyrir ÍBV og þær komnar í annað sæti deildarinnar á meðan Afturelding er enn í áttunda sæti, stigi á eftir FH.

Aftureldingarliðið átti ekki nægilega góðan leik í fyrri hálfleik og ÍBV leiddi líklega verðskuldað í leikhléi. Lið þeirra er afar vel skipað enda verið í toppbaráttu í Pepsideildinni undanfarin ár, urðu í öðru sæti í fyrra og þriðja sæti árið 2011 þannig að hér er ekki um neina byrjendur að ræða. Í síðari hálfleik var allt annað til okkar að sjá en herslumuninn fræga vantaði og því fór sem fór.

Næsti leikur er við Þór/KA á útivelli á Akureyri á laugardag og síðan kemur Stjarnan í heimsókn í næstu viku. Mótinu lýkur svo með heimsókn í Víkina og leik við HK/Víking 16.september.