Leikurinn sem fór fram á gerfigrasi KR einkenndist af mikilli baráttu og var ljóst að hvorugt lið vildi láta í minni pokann. Nokkur hiti var í leikmönnum beggja liða og þurfti dómari leiksins m.a. að skakka leikinn um miðjan fyrri hálfleik og róa menn. Í síðari hálfleik dró til tíðinda þegar Wentzel Steinarr Ragnarsson Kamban skoraði fyrir Aftureldingu með lúmsku skoti utan úr teig í gegnum mikla þvögu. Fram að því voru gestirnir betri aðilinn eftir hlé en KV efldist við mótlætið og sótti grimmt og uppskar loks mark úr vítaspyrnu. Síðustu mínúturnar skiptust liðin á að sækja og Afturelding fékk nokkur prýðisfæri en fleiri urðu mörkin ekki.
Afturelding getur ágætlega við unað að fá stig á útivelli gegn liði sem spáð er velgengni í sumar en þó munaði ekki miklu að stigin yrðu fleiri. Wentzel Steinarr var sprækur í sókninni og Ægissynir börðust vel á miðjunni. Axel Lár og Þorgeir Leó voru góðir og Arnór Snær dreif sína menn áfram og lét vel heyra í sér. Allt liðið stóð annars fyrir sínu en maður leiksins í kvöld er valinn Elvar Ingi sem átti marga góða spretti og fyrirgjafir auk þess sem hann barðist vel gegn oft afar ágengum varnamönnum heimamanna.
Afturelding og KV eru áfram efst og jöfn í deildinni með 7 stig eftir 3 leiki en KV reyndar með betra markahlutfall. Næst mæta strákarnir ÍR á heimavelli á laugardaginn eftir viku.