Þetta er heimaleikur Vals þar sem Vodafonevöllurinn er ekki tilbúinn fyrir tvö leiki í röð en karlalið Vals átti heimaleik í gær. Var þessi leikur því færður í Egilshöll.
Afturelding hóf deildina með krafti og skoraði fyrsta mark tímabilsins eftir tæplega átta mínútna leik gegn FH á Varmárvelli fyrir viku. Því miður náðum við ekki að fylgja því nægilega vel eftir og gestirnir úr Hafnarfirði tóku með sér öll stigin þrjú. Á sama tíma gerði Valur jafntefli við Þór/KA fyrir norðan.
Af okkar stelpum er allt ágætt að frétta en áfram eru þó nokkrir sterkir leikmenn frá vegna meiðsla. Steinunn Sigurjónsdóttir sem skoraði sitt fyrsta meistaraflokksmark í sínum fyrsta leik fyrir félagið gegn FH og fór svo meidd af velli í fyrri hálfleik er ekki talin alvarlega meidd en þær Katla og Bergrós sem komu frá Val undir lok félagaskiptagluggans fá ekki að spila gegn Val í kvöld vegna reglna um lánsleikmenn.
Valsliðinu er spáð ágætu gengi í sumar, þriðja sætinu m.a. á Fótbolta.net en án efa stefna Valsarar ofar. Í liðinu er m.a. Mosfellingurinn Mist Edvardsdóttir sem sneri heim úr atvinnumennsku í vetur og einnig ættum við að þekkja Ingunni Haraldsdóttur sem lék með Aftureldingu síðasta sumar á láni og stóð sig afbragðsvel. Þá má nefna fleiri þekkta leikmenn með Dóru Maríu Lárusdóttur í broddi fylkingar og ljóst að það verður öflugt lið sem mætir til leiks gegn okkar stelpum í kvöld.
Knattspyrnudeild hvetur Mosfellinga til að kíkja í Egilshöllina í kvöld og styðja við Aftureldingarliðið í þessum mikilvæga leik.