Pepsi deildin komin af stað – tap í fyrsta leik.

Knattspyrnudeild Knattspyrna

Leikurinn hófst nokkuð fjörlega og minnstu munaði að Afturelding næði forystunni þegar Telma komst í ágætis færi á fyrstu mínútu en hún náði ekki að stýra skoti sínu á rammann. Örstuttu síðar varð meinlegur misskilningur í vörninni okkar og Valur nýtti sér það og staðan 1-0 eftir aðeins þrjár mínútur. Þetta sló okkar stelpur útaf laginu og þær náðu sér ekki almennilega á strik eftir þetta. Valur bætti við tveimur mörkum fyrir hlé og leiddi 3-0 í hálfleik.

Í upphafi síðari hálfleiks átti Telma ágætt skot beint úr aukaspyrnu rétt yfir mark Vals en það voru heimamenn á Vodafone vellinum sem réðu ferðinni sem fyrr og þegar yfir lauk voru mörkin orðin sjö gegn engu.

Eitt helsta vopn okkar í Aftureldingu síðustu ár, liðsheildin, var því miður ekki svipur hjá sjón að þessu sinni og því fór sem fór. Duglegastar í kvöld voru Lára Kristín og Sandra auk þess sem Telma átti nokkra spretti en heilt yfir var liðið að spila langt undir pari.

Mótherjarnir voru reyndar ógnarsterkir og vel undirbúnir og gáfu ekki tommu eftir frá fyrstu mínútu til hinnar síðustu. Elín Metta skoraði fjögur mörk og á án efa eftir að bæta við nokkrum í sumar og má mikið útaf bera ef Valur gerir ekki alvöru atlögu af titlinum í ár.

Lið Aftureldingar: Halla, Halldóra (Guðný 75), Kristrún, Jenna, Kristín, Sandra (Eydís 60), Lára Kristín, Marcia, Hafdís (Valdís 79), Telma og Sigga.

Maður leiksins: Halla Margrét Hinriksdóttir. Þrátt fyrir að gera fáein mistök eins og liðsfélagarnir allir og fá á sig sjö mörk var Halla Margrét eini leikmaður Aftureldingar sem hélt haus allan leikinn. Hún átti nokkrar flottar vörslur sérstaklega í seinni hálfleik og verður ekki sökuð um ósigurinn.