Leikið verður í þremur riðlum og leikur Afturelding í B-riðli ásamt Augnablik, Álftanesi, Fjölni, Grindavík, Gróttu, Haukum og Keflavík. Mótanefnd er nú að raða niður mótinu og mun leikjaplanið liggja fyrir á næstu dögum segir í frétt á vef KSÍ.
Í A-riðli leika Fram, HK/Víkingur, Hvíti Riddarinn, ÍR, KH, Skínandi, Víkingur Ólafsvík og Þróttur og í C-riðli sem er skipaður liðum af norður og austanverðu landinu eru Einherji, Fjarðabyggð, Hamrarnir, Höttur, Sindri, Tindastóll og Völsungur.
Leikin verður tvöföld umferð í riðlunum og að henni lokinni hefjast 8-liða úrslit. Þau tvö lið sem ná alla leið í úrslit ávinna sér sæti í Pepsideildinni 2017.
Af væntanlegum mótherjum Aftureldingar í sumar er það helst að segja að Grindavík var með afar gott lið í fyrra og fór taplaust í gegnum riðlakeppnina en beið svo lægri hlut fyrir ÍA í undanúrslitum og varð að bíta í það súra epli að sitja eftir í 1.deild. Þá komst Augnablik í 8 liða úrslitin en féll þar úr leik fyrir einmitt Grindavík.
Í hinum riðlunum beinist kastljósið helst að Þrótti sem lék í Pepsideildinni í fyrra og HK/Víking sem eins og Grindavík fór taplaust í gegnum riðlakeppnina en féll svo út í undanúrslitum. Þá var Völsungur á Húsavík með sterkt lið að vanda en féll þó úr leik í 8 liða úrslitum. Áhugavert verður svo að fylgjast með liðunum á undirbúningstímabilinu og þreifingunum á leikmannamarkaðinum þegar nær dregur móti.