Góður sigur í Faxaflóamótinu

Knattspyrnudeild Knattspyrna

Aðstæður til knattspyrnuiðkunnar voru hinar ágætustu á gerfigrasvellinum að Varmá þrátt fyrir kulda en sólin iljaði þó eins og hægt var og vindur var lítill.

Leikurinn hófst enda með látum og strax eftir fjórar mínútur fékk Afturelding aukaspyrnu úti á hægri kanti rétt utan vítateigs. Það var svo Stefanía Valdimarsdóttir sem var öflugust uppvið markið og kom hún Aftureldingu yfir 1-0.

Aðeins mínútu síðar sóttu gestirnir og fengu hornspyrnu. Uppúr henni jafnaði FH en leikmaður þeirra fékk fullmikið pláss inná teig og skoraði af öryggi og staðan 1-1. Áfram hélt fjörið og Valdís Ósk Sigurðardóttir átti frábært skot utan teigs eftir fimmtán mínútur sem markmaður FH varði með tilþrifum í stöng.

Eftir 22 mínútur fékk svo Stefanía snilldarsendingu gegnum vörn FH og slapp ein á móti markmanni. Hún kláraði færið af yfirvegun og staðan orðin 2-1 fyrir Aftureldingu. Eftir þetta róaðist leikurinn aðeins og fleiri mörk voru ekki skoruð í fyrri hálfleik.

Í síðari hálfleik var stöðubarátta allsráðandi og lítið um færi. Minnstu munaði að Stefanía næði þrennunni þegar hún komst í gegn og þá gerðu FH-ingar nokkrar atlögur að okkar marki án árangurs. FH sem leikur í Pepsideildinni í sumar pressaði nokkuð undir lok leiks en vörn Aftureldingar stóð allt af sér og úrslitin því 2-1 sigur Ungmennafélagins.

Afturelding sem leikur eingöngu gegn Pepsideildarliðum í Faxaflóamótinu í ár er þá með fjögur stig eftir fjóra leiki og á eftir útileik gegn Selfossi.

Mynd: Bjarki Már Sverrisson