Róbert Orri gengur til liðs við Breiðablik

Ungmennafélagið Afturelding Knattspyrna

Róbert Orri Þorkelsson hefur gengið til liðs við Breiðablik frá uppeldisfélagi sínu Aftureldingu. Róbert hefur verið fastamaður í unglingalandsliðum Íslands undanfarin ár og var mikill áhugi á Róberti frá liðum í Pepsi-deildinni núna í haust. Breiðablik og Afturelding komust að samkomulagi í lok vikunnar og gekk Róbert til liðs við Breiðablik í dag.

Róbert Orri er 17 ára gamall en hefur þrátt fyrir ungan aldur leikið 40 meistaraflokksleiki með Aftureldingu og skorað í þeim þrjú mörk. Hann var valinn besti leikmaður Aftureldingar á tímabilinu í sumar á lokahófi knattspyrnudeildar. Róbert lék á miðjunni hjá Aftureldingu í sumar en hann hefur leikið stöðu vinstri bakvarðar með yngri landsliðum Íslands.

Breiðablik mun tefla fram tveimur uppöldum leikmönnum frá Aftureldingu næsta sumar því markvörðurinn Anton Ari Einarsson samdi einnig við Breiðablik fyrr í haust.

Afturelding óskar Róberti Orra og Antoni Ara góðs gengis með Breiðabliki á næstu leiktíð!