Fyrir leikinn mátti búast við þöndum taugum enda byrjuðu bæði lið á tapleik í fyrstu umferð. Aftureldingarstúlkum var mikið í mun að snúa við blaðinu frá erfiðum leik gegn Val og það gekk eftir, stelpurnar unnu Þrótt 2-0 í ágætisleik en markalaust var í hálfleik.
Afturelding var betra liðið allan tímann og átti mun fleiri marktækifæri en gestirnir þó opin færi hafi reyndar ekki verið mörg. Það tók þó heilar 75 mínútur að brjóta ísinn en það var Lára Kristín Pedersen sem gerði það þegar hún hirti frákastið eftir skot Telmu Þrastardóttur og lyfti boltanum yfir markmann og varnarmenn Þróttara og í netið. Nokkrum mínútum síðar var svo Telma sjálf á ferðinni þegar hún stakk sér í gegn og renndi knettinum framhjá markmanni Þróttar og staðan orðin 2-0.
Afturelding lék ágætlega og vann sanngjarnan og sannfærandi sigur þó fæðingin hafi verið nokkuð erfið. Þróttur barðist vel og gerði okkar stelpum erfitt fyrir á köflum en gestirnir áttu þó ekki nein umtalsverð færi og þegar þeir gerðu sig líklega var Halla vel á verði í marki Aftureldingar. Kristrún og Jenna voru afar traustar í miðri vörninni og Kristín og Guðný Lena léku ágætlega í bakvarðastöðunum. Lára Kristín átti prýðisleik á miðjunni og Marcia Silva er að komast betur inní leik liðsins. Sandra og Snædís léku einnig vel sem og Aldís sem kom inná í síðari hálfleik. Þá var Sigga sífellt vakandi fyrir tækifærum í sókninni en maður leiksins í jöfnu liði Aftureldngar er að þessu sinni valin Telma Hjaltalín Þrastardóttir en hún átti mikinn þátt í báðum mörkunum og var lífleg í sóknarleiknum í kvöld
Með sigrinum fara stelpurnar í sjötta sæti deildarinnar jafnar að stigum og Valur og ÍBV. Næsti leikur er um helgina á Selfossi
Lið Aftureldingar: Halla – Guðný Lena, Jenna, Kristrún, Kristín – Snædís (Aldís 63), Lára Krístín, Marcia Silva, Sandra – Sigga, Telma.