Faxaflóamóti yngri flokka að ljúka

Knattspyrnudeild Knattspyrna

2.flokkur karla keppti í A deild og gekk upp og ofan. Strákarnir luku keppni í 8 sæti með 9 stig en þeir eru nú að undirbúa sig fyrir fyrsta leik í Íslandsmótinu sem fram fer á Ísafirði á mánudaginn kemur. Markahæstur var Sigurpáll Melberg Pálsson með 6 mörk. Sigurpáll og Viktor Bergmann Bjarkason hafa báðir verið í hóp hjá meistaraflokki undanfarið og fleiri efnilegir piltar bíða síns tækifæris. Þá má til gamans geta að drengirnir láta ekki bara til sín taka innan vallar því Axel Ívarsson keppti til úrslita í Gettu Betur á dögunum með liði Verzlunarskólans.

2.flokkur kvenna var hársbreidd frá sigri í B deild en endaði í 2 sæti eftir jafntefli í síðasta leik. Stelpurnar léku afbragðsvel og fór Valdís Björg Friðriksdóttir á kostum og skoraði 13 mörk í 6 leikjum. Guðrún Ýr Eyfjörð sem er að koma til baka eftir erfið meiðsli gerði 8 mörk og Krístín Þóra Birgisdóttir vakti athygli með 3 mörk í 4 leikjum fyrir 2.flokk aðeins 14 ára gömul. Allmargar úr hópnum æfa einnig með meistaraflokki og hafa þær Snædís, Eydís og Valdís allar komið við sögu í fyrstu tveimur leikjum meistaraflokks í Pepsi deildinni.

3.flokkur karla er heldur betur farinn að láta til sín taka en A-liðið var með í toppbaráttu A deildar til síðasta leiks. Liðið lauk keppni með 25 stig í 3 sæti. Strákarnir voru að leika einstaklega vel og eru farnir að minna á sig á landsvísu með sinni frammistöðu. Arnór Gauti Ragnarsson var öflugur með 13 mörk í 6 leikjum og Bjarki Eyþórsson skoraði 10 mörk í 10 leikjum. Allir eru þessi ungu herramenn til mikillar fyrirmyndar og m.a. lék Birkir Þór Guðmundsson sína fyrstu leiki með U17 fyrr í vor og Axel Óskar Andrésson er á leið til Norwich City til reynslu.

B-lið 3.flokks átti einnig gott mót í A-deild og lauk keppni í 5.sæti. Andri Freyr Jónasson fór þar fremstur með 10 mörk í aðeins 5 leikjum og þeir Ísak Máni Viðarsson og Guðlaugur Birkir Jóhannsson skoruðu 9 og 8 mörk hvor.

4.flokkur er að ljúka sínum leikjum um þessar mundir og standa mál þannig að A-lið karla er í 5.sæti, B-liðið í 4.sæti og C-liðið í 1.sæti í sínum riðlum og frábært að strákarnir geti teflt fram þremur liðum í 11manna bolta en stelpurnar eru með eitt lið sem situr nú í 4.sæti. Öll lið 4.flokks karla og kvenna keppa í B-riðli í Faxanum.