Stjarnan hefur tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn fyrir nokkru og er með fullt hús stiga í deildinni þannig að okkar stelpum bíður verðugt verkefni að sækja stig í greipar Garðbæinga. Í fyrri leik liðanna átti Afturelding í fullu tré við Stjörnuna á útivelli og það var ekki fyrr en eftir rúman klukkutíma að landsliðsmiðherjinn Harpa Þorsteinsdóttir tók til sinna ráða að Stjarnan seig framúr og vann að lokum örugglega.
Afturelding hefur verið að spila vel í undanförnum leikjum og safnað stigum á sterkum útivöllum. Liðið situr í áttunda sæti og stefnir hærra en FH er með jafnmörg stig en hagstæðara markahlutfall. HK/Víkingur er svo í níunda sæti og eygir enn möguleika á að ná okkur að stigum. Til að tryggja sætið okkar í Pepsideild þurfum við helst einn sigur í viðbót og það væri nú sætt að taka hann af Íslandsmeisturunum á Varmárvelli á miðvikudag.
Meistaraflokkur kvenna leikur nú sitt sjötta tímabil í röð í efstu deild en íslenska deildin er talin meðal sterkustu deilda Evrópu í kvennaboltanum. Þetta er frábært afrek hjá stelpunum okkar en innfæddar og uppaldar Aftureldingarstúlkur hafa verið burðarásar í liðinu allan þennan tíma. Umgjörð liðsins er til fyrirmyndar og mikil fagmennska í starfinu og nú þarf bara að klára dæmið og auka stuðninginn í stúkunni til að tryggja áframhaldandi veru liðins í efstu deild.
Mosfellingar allir sem einn – fjölmennum á Varmá á miðvikudag og styðjum við stelpurnar okkar í þessari spennandi baráttu. Áfram Afturelding !