Afturelding er áfram á toppi 2. deildar karla í knattspyrnu eftir 4-0 sigur á Huginn frá Seyðisfirði á Varmávelli í dag. Vel var mætt á áhorfendapalla í dag en Mosfellsbær bauð bæjarbúum frítt á leikinn í tilefni af bæjarhátíðinni „Í túninu heima“ sem fram fer um helgina.
Heimamenn í Aftureldingu komust yfir eftir um hálftímaleik með marki frá Wentzel Steinarr R. Kamban. Hann var aftur á ferðinni skömmu síðar og skoraði frábært mark. Staðan 2-0 í hálfleik og heimamenn í Aftureldingu í vænlegri stöðu.
Afturelding gerði út um leikinn snemma í seinni hálfleik með mörkum frá Spánverjunum Alonso Sanchez Gonzalez og Jose Miguel Gonzalez Barranco. Lokatölur á Varmárvelli 4-0 fyrir Aftureldingu sem er fyrir vikið með 36 stig á toppi deildarinnar – jafnmörg stig og Grótta en betri markatölu.
Þegar fjórar umferðir eru eftir af deildarkeppninni munar aðeins tveimur stigum á þremur efstu liðunum í deildinni. Hart verður barist um að komast upp í Inkasso-deildina en tvö efstu liðin fara upp um deild.
Næsti leikur Aftureldingar er sannkallaður stórleikur þegar haldið verður út á Seltjarnarnes og leikið gegn Gróttu næstkomandi föstudagskvöld. Uppgjör efstu liðanna deildinni. Næsti heimaleikur fer fram 8. september þegar Þróttur frá Vogum kemur í heimsókn.
Afturelding 4 – 0 Huginn
1-0 Wentzel Steinarr R Kamban (’28)
2-0 Wentzel Steinarr R Kamban (’37)
3-0 Alonso Sanchez Gonzalez (’48)
4-0 Jose Miguel Gonzalez Barranco (’50)
Öflugur 4-0 sigur á Huginn fyrir fram fullt af áhorfendum á Varmárvelli í dag. @wentzelsteinarr var í bæjarhátíðar stuði og skoraði tvö mörk. @joselinhomlg19 og @Alonsosanchez7 skoruðu sitt markið hvor. Næsti leikur er toppslagur gegn Gróttu á föstudag. Áfram Afturelding! pic.twitter.com/RqoOVUxTc2
— Afturelding (@umfafturelding) August 25, 2018