Svekkjandi tap á síðustu mínútu

KnattspyrnudeildKnattspyrna

Fyrir tímabilið var þessum liðum spáð tveimur efstu sætunum í 2.deild og því nokkur eftirvænting að sjá þau etja kappi á Hertz vellinum. Veðrið var með hressara móti og gerði leikmönnum sem og áhorfendum erfitt fyrir.

Fyrri hálfleikur var tíðindalítill. Afturelding lék skipulega og hélt sínum mönnum fyrir aftan boltann og sótti svo á fáum mönnum. Helst var fréttnæmt að hinn gamalreyndi dómari leiksins, Kristinn Jakobsson lét eiga sig að dæma eitthvað þegar ÍR-ingur féll við í vítateignum þrátt fyrir hávær mótmæli heimamanna innan vallar og úr stúkunni. Skömmu síðar féll Elvar Ingi Vignisson við í vítateignum hinu megin og aftur lét Kristinn sér fátt um finnast og markalaust var í hléi.

Leikurinn opnaðist heldur í síðari hálfleik og bæði lið sköpuðu sér færi. Fyrsta markið kom svo eftir rúmlega tíu mínútna leik þegar Birgir Ólafur Helgason tók mikinn sprett upp hægri vænginn, fór illa með varnarmenn ÍR og gaf fastan bolta fyrir á fjærstöng þar sem Elvar Ingi kom og hamraði boltann í marknetið af stuttu færi og staðan 1-0 fyrir okkar mönnum.

ÍR sótti í sig veðrið og náðu að jafna nokkrum mínútum síðar þegar Jón Gísli Ström fór laglega í gegn og afgreiddi boltann með þrumuskoti í markhornið fjær, óverjandi fyrir Huga og staðan orðin 1-1. Afturelding fékk aukaspyrnu á hættulegum stað en Alexander Aron Davorsson átti þrumuskot í varnarvegginn og stuttu síðar lagði Sigurpáll Melberg Pálsson boltann í innanverða stöngina með laglegu skoti rétt utan teigs. Magnús Örn Þórsson fékk svo dauðafæri en allt kom fyrir ekki.

Það var því afar svekkjandi þegar ÍR skoraði sigurmarkið í uppbótartíma en eftir góða sókn þeirra barst boltinn út fyrir teig þar sem Kristján Ari Halldórsson kom aðvífandi og setti hann í markhornið án þess að Hugi kæmist til varnar og ÍR-ingar fögnuðu ákaft mikilvægum stigum í toppbaráttunni.

Aftureldingarliðið lék frekar varfærnislega framan af og ætlaði sér greinilega að treysta á skyndisóknir. Leikplanið gekk ágætlega upp lengi vel en uppskeran brást og geta heimamenn hrósað happi enda áttu þeir heldur minna í leiknum að mati fréttaritara. Góðir í liði Aftureldingar voru m.a. þeir Andri Hrafn og Arnór Fannar á miðjunni og Einar Marteinsson var öruggur í vörninni. Þá átti Birgir Ólafur Helgason skínandi góðan leik í hægri bakverðinum og undirbúningur hans að marki Aftureldingar tryggir honum titilinn maður leiksins að þessu sinni.