Sögulegur fyrsti Íslandsmeistaratitill í höfn hjá Aftureldingu

Körfuknattleiksdeild Aftureldingar Körfubolti

Oddaleikur í 9. flokki drengja fór fram á Meistaravöllum á miðvikudaginn þar sem lið KR tók á móti Aftureldingu.  Í fyrsta leik fór Afturelding með sigur á Meistaravöllum.  KR jafnaði leikinn í Varmá í leik tvö fyrir fullu húsi stuðningsmanna liðanna og var frábært að sjá fjölda Aftureldingafólks á pöllunum.  Oddaleikurinn var hörkuleikur eins og fyrri leikir hjá þessum flottu liðum en KR tryggði sér bikarmeistaratitilinn á dögunum og endaði í öðru sæti deildarkeppninnar.  Afturelding varð í fjórða sæti í deildinni og þurfti því að takast á við Stjörnuna í undanúrslitum og sigraði þann leik eftir framlengingu.  Stjarnar varð í efsta sæti deildarinnar í vetur.

KR tók forystu í 1. leikhluta og leiddi leikinn 16-10.  Afturelding kom ákveðið inn í 2. leikhluta og staða í hálfleik 25-33 fyrir gestunum.  Afturelding hélt forystunni það sem eftir lifði leiks og sigraði með 66 stigum gegn 51 stigi KR.  Í liði KR var Benóní Andrason stigahæstur með 17 stig. Atkvæðamestir í liði Aftureldingar voru Sigurbjörn Einar Gíslason með 24 stig, Dilanas Sketrys með 17 stig og Björgvin Jónsson með 14 stig.  Ísak Rökkvi Guðmundsson og Dilanas voru öflugir í fráköstum og rifu niður 12 bolta hvor.  Kristófer Óli Kjartansson var duglegur að dæla boltum á samherja sína og var með 8 stoðsendingar og Sigurbjörn með 5. Leikmaður einvígisins (MVP) var valinn Dilanas Sketrys út liði Aftureldingar. Þjálfari Aftureldingar er Sævaldur Bjarnason og aðstoðarþjálfari Hlynur Logi Ingólfsson.  Tölfræði leiksins má sjá hér.

 

Sævaldur þjálfari og Dilanas sem valinn var MVP úrslitakeppninnar

Þessi sigur er sögulegur fyrir Aftureldingu þar sem um er að ræða fyrsta Íslandsmeistaratitil félagsins í körfuknattsleik.

TIL HAMINGJU AFTURELDING!