Bjarki Már Sverrisson hefur látið af störfum sem yfirþjálfari yngri flokka knattspyrnudeildar Aftureldingar. Bjarka er þakkað fyrir ómetanlegt starf fyrir félagið. Bjarki hefur verið hryggjarstykki í starfi deildarinnar um langt skeið sem hefur tekið stórfelld framfaraskref undir hans stjórn. Auk þess að starfa sem yfirþjálfari hefur Bjarki þjálfað allt frá yngstu flokkum félagsins til meistaraflokka í rúm 30 ár.
Yfir stendur endurskipulagning á barna- og unglingastarfi knattspyrnudeildar. Breytingarnar fela í sér að núverandi staða yfirþjálfara verður lögð niður. Þess í stað verður ráðinn rekstrarstjóri barna- og unglingaráðs í fullt starf auk þess að yfirþjálfarastarfinu verður skipt í tvær stöður; yfirþjálfara yngri flokka annars vegar og yfirþjálfara eldri flokka hins vegar. Markmiðið með þessum breytingum er að efla starfið enn frekar, bæta þjónustu við iðkendur og takast á við þær áskoranir sem fylgt hafa örum vexti síðustu ár.