Bikarslagur á föstudag, Afturelding – KR

KnattspyrnudeildKnattspyrna

Í fyrra náðu stelpurnar okkar í undanúrslit og öttu þar kappi við firnasterkt lið Vals en töpuðu naumlega. Núna bíður okkar að mæta KR í 8-liða úrslitum og með sigri nær liðið í undanúrslit annað árið í röð og gerir þar með alla sparkspekinga endanlega ráðþrota.

Liðið hefur verið á góðri siglingu undanfarið eftir rólega byrjun og með tveimur sigurleikjum í röð í deildinni eru stelpurnar komnar úr fallsæti og mikill hugur kominn í þær að halda áfram á sömu braut. Þær mættu einmitt KR á Varmárvelli fyrir viku í deildinni og unnu þá 1-0 og vilja nú sýna að það var engin tilviljun.

KR er eitt af stórveldum íslenskrar kvennaknattspyrnu og hefur sex sinnum orðið Íslandsmeistari og fjórum sinnum bikarmeistari, síðast árið 2008. Liðið komst í úrslit í fyrra þar sem það tapaði fyrir Val á Laugardalsvelli en Valur vann einmitt Aftureldingu í undanúrslitum í fyrra.

Búið er að ganga frá samningum við veðurguðina um bestu aðstæður til knattspyrnuiðkunnar á föstudagskvöldið og vill knattspyrnudeild nú skora á Mosfellinga að seinka sumarbústaðarferðinni örlítið og koma á Varmárvöll í staðinn og styðja okkar frábæru stelpur til sigurs – Áfram Afturelding !