3.flokkur karla leikur til úrslita á sunnudag

KnattspyrnudeildKnattspyrna

Afturelding tók á móti Stjörnunni í undanúrslitum Íslandsmeistarmótsins í knattspyrnu í 3.flokki á N1 vellinum að Varmá. Leikið var við ágætis aðstæður en dálitla bleytu og var spilað á gerfigrasvellinum.

Stjarnan byrjaði leikinn betur og náðu forystu strax eftir átta mínútur þegar þeir skoruðu ágætis skallamark en varnarmenn okkar hefðu þó hugsanlega getað gert betur. Eftir markið var leikurinn í ágætu jafnvægi og bæði lið þreifuðu fyrir sér áfram. Stjarnan féll líklega í þá gildru að bakka smám saman full mikið og sóknir Aftureldingar þyngdust án þess að opin færi væru mörg og staðan 0-1 í hálfleik.

Í síðari hálfleik héldu okkar piltar áfram að leita að smugum á sterkri vörn Stjörnunnar og þolinmæðin bar snemma árangur því Ísak Máni Viðarsson náði að koma boltanum í netið eftir 48 mínútur eftir þvögu í markteig þeirra bláu. Staðan orðin jöfn og sóknir Aftureldingar þyngdust enn. Stjarnan átti þó sína spretti og ljóst að ekki mátti slaka á í vörninni.

Eftir 67 mínútur kom svo annað mark okkar manna og aftur var það Ísak Máni sem var á ferðinni með þrumuskoti og var mikið fagnað á Varmárvelli. Stjörnumenn blésu til mikillar sóknar og freistuðu þess að jafna en vörn Aftureldingar hélt með sóma og reyndar áttu drengirnir okkar nokkrar sóknir undir lok leiksins og hefðu jafnvel getað klárað leikinn fyrr. En úrslitin 2-1 og Afturelding spilar til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn á sunnudag.