Draumurinn úti – Afturelding áfram í 2.deild

Knattspyrnudeild Knattspyrna

Afturelding byrjaði mun betur og Alexander Aron Davorsson kom okkar mönnum yfir eftir aðeins fjórar mínútur. Í kjölfarið fylgdi góður kafli þar sem Afturelding hafði mun meira af boltanum og voru hættulegri. HK átti þó sína spretti og eftir þeirra fyrstu alvöru sókn barst boltinn út í vítateig á Tryggva Guðmundsson sem nýtti alla sína reynslu og lagði boltann óverjandi í fjærhornið og jafnaði metin.

Enn var Afturelding meira með boltann og hefði verið fróðlegt að sjá tölfræði um „posession“ í fyrri hálfleik. Það kom því eins og þruma úr heiðskíru lofti þegar HK komst í skyndisókn og skoruðu og staðan 2-1 fyrir þeim í hálfleik.

Eftir hlé héldu okkar menn áfram að sækja en nú gátu HK menn bakkað og beitt snöggum sóknum. Magnús Már Einarsson fékk líklega okkar besta færi eftir glæsilega sókn en besti maður vallarins, markmaður HK, varði. Örstuttu síðar var boltinn kominn í netið hinu megin og nú var brekkan orðin ansi brött. Þrátt fyrir nokkrar fínar tilraunir tókst ekki að minnka muninn og í uppbótartíma kláruðu HK menn leikinn með sínu fjórða marki og 1.deildar sæti að ári er þeirra.

Úrslit annarra leikja þýða að Afturelding nær aldrei ofar en þriðja sæti þar sem KV og Grótta mætast í síðustu umferð og þau geta ekki bæði tapað og þar með erum við úr leik í baráttunni um 1.deildar sætið.