Afturelding á næstbestu knattspyrnumenn Íslands !

KnattspyrnudeildKnattspyrna

Strákarnir okkar unnu B-deildina nokkuð sannfærandi í sumar með sex stiga forskot á næsta lið og tryggðu sér þar með sæti í undanúrslitum þar sem þeir lögðu Stjörnuna á dögunum 2-1. Þar með var sæti í úrslitaleiknum tryggt gegn Breiðablik sem vann A-deildina með yfirburðum.

Leikið var í Kórnum vegna vallarskilyrða á Varmárvelli og var vel mætt í stúkuna í Kórnum frá báðum liðum og mikil stemning í húsinu. Jafnræði var með liðunum framanaf, Afturelding leyfði Blikum að halda boltanum úti á vellinum en mættu þeim af krafti þegar þeir gerðu sig líklega til sóknaraðgerða.

Um miðjan hálfleikinn áttu okkar strákar tvö flott færi, fyrst braust Stefnir Guðmundsson upp allan völl og var nánast kominn í gegn þegar hópur af grænklæddum varnarmönnum náðu loks að stoppa hann og stuttu síðar munaði sáralitlu að Ísak Máni Viðarsson næði til laglegrar fyrirgjafar frá Arnóri Gauta Ragnarssyni sem hafði spólað sig upp kantinn. En Blikar svöruðu með marki á fjærstöng eftir aukaspyrnu utan af velli og leiddu 1-0 í hálfleik.

Snemma í síðari hálfleik náði Breiðablik svo að bæta við öðru marki og þrátt fyrir nokkrar ágætar tilraunir okkar pilta náðist ekki að brjóta ísinn og úrslitin urðu því 2-0 fyrir Breiðablik. Lið Aftureldingar getur þó vel við unað þegar sumarið er gert upp og það er ekki amalegt að taka silfrið í þessum aldursflokki.

Margir í þessu liði okkar léku einmitt undanúrslitaleik við Breiðablik í Íslandsmeistaramótinu í fyrrasumar og ljóst að árangurinn í sumar er svo sannarlega engin tilviljun.

Knattspyrnudeild vill óska strákunum í 3.flokki öllum til hamingju með glæsilegan árangur í sumar og er full tilhlökkunar að fylgjast með ykkur í framtíðinni. Þjálfarar flokksins, Úlfur Arnar Jökulsson og Einar Finnbogason fá einnig innilegar hamingjuóskir og þakkir með sín frábæru störf.

Mynd úr einkasafni.