Afturelding áfram meðal þeirra bestu

Knattspyrnudeild Knattspyrna

Fyrir leikinn var ljóst að HK/Víkingur þyrfti að sigra með þriggja marka mun til að ná okkar stelpum að stigum og jafna markamuninn. Það getur ekki verið auðvelt að setja þannig leik upp fyrir þjálfara en John stillti upp nokkurn veginn sama liði og undanfarið ásamt því að Sigríður Þóra Birgisdóttir brá sér uppá klakann til að leggja hönd á plóg í þessum mikilvæga leik.

HK/Víkingur byrjaði betur og virkuðu mjög ákveðnar í að ná góðum úrslitum. Snemma leiks lá boltinn í marki Aftureldingar eftir frekar klauflegan varnarleik og áður en flautað var til hálfleiks var staðan orðin 2-0 fyrir heimastúlkur eftir að mistekist hafði að hreinsa frá eftir horn.

En í síðari hálfleik náðu okkar stúlkur betri tökum á sínum leik og var jafnræði með liðunum það sem eftir var. Oft hafa sést fleiri og opnari færi í leikjum okkar í sumar en það skipti ekki máli því í uppbótartíma spólaði Sigríður Þóra sig í gegnum vörn HK/Víkings og lagði boltann snyrtilega framhjá markverði þeirra og staðan 2-1. Það sem eftir lifði leiks héldum við boltanum og þegar dómarinn flautaði leikinn af braust út mikill fögnuður þrátt fyrir tapið því áttunda sætið var tryggt og þar með áframhaldandi sæti í efstu deild næsta sumar.

Oft í sumar hefur liðsheildin verið okkar besti maður og óhætt er að segja að í þessum leik hafi allir lagt sig 110% fram. Megan lék vel og varnalínan með Kristrúnu, Jennu, Hrefnu Guðrúnu og Ingunni stóð af sér áhlaup heimamanna þegar mest lá við. Á miðri miðjunni börðust Sandra, Aldís, Eydís og Eva Rún og frammi voru Sigga og Danielle óþreytandi. Varamennirnir Valdís og Guðný Lena komu inn með krafti og í uppbótartíma fékk Guðrún Sól sínar fyrstu mínútur í Pepsideildinni.

Sérstakt hrós fær tólfti maðurinn, stuðningsmaðurinn, en það var vel mætt í stúkuna á Víkingsvelli og létu þar menn og konur vel í sér heyra og vonandi að svo verði áfram næsta sumar í Pepsideild kvenna.