Stjórn Blaksamband Íslands hefur valið Thelmu Dögg Grétarsdóttur sem blakkonu ársins 2017. Thelma Dögg leikur með VBC Galina í Liechtenstein en liðið leikur í úrvalsdeildinni í Sviss. Hún er uppalin hjá Aftureldingu í Mosfellsbæ og varð bikarmeistari með liðinu í Kjörísbikarnum í vor, endaði í 2. sæti Mizunodeildarinnar og í Íslandsmótinu eftir harða rimmu við HK. Thelma Dögg var burðarás í liði Aftureldingar á síðustu leiktíð.
Thelma Dögg er ein fjölmargra Íslendinga sem spila erlendis og hefur ferill hennar hjá Galina byrjað afar vel. Sem stendur er Thelma stigahæsti leikmaður liðsins og er í 5. sæti yfir stigahæstu leikmenn svissnesku deildarinnar en þar stendur Galina í 8. sæti nú um jólin. Thelma spilar með liði sínu í áskorendakeppni Evrópu og á ágæta möguleika á að komast í 16 liða úrslitin.
Thelma Dögg var burðarás í íslenska landsliðinu í vor og sumar þegar liðið spilaði í 2. umferð undankeppni fyrir HM í Póllandi og á Smáþjóðaleikunum. Thelma Dögg átti sína bestu leiki með landsliðinu þegar Ísland tryggði sér gullverðlaun í Evrópukeppni Smáþjóða 2017 í Luxemborg í lok júní.
Thelma Dögg Grétarsdóttir er fyrirmyndar íþróttakona sem lætur drauma sína rætast og spilar nú í sterkri deild erlendis. Hún á að baki 36 landsleiki fyrir landsliðið og verða þeir eflaust fleiri um ókomin ár.
Thelma er fyrsta atvinnukona Aftureldingar í blaki og óskum við henni hjartanlega til hamingju með útnefninguna og árangurinn á árinu.